138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:04]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni skýr svör. Mig langar aðeins að færa málið í seinna andsvarinu yfir á annan hlut sem tengist Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það kom fram í fréttum á Pressunni í dag að fulltrúar hóps, og þetta tengist reyndar þessum Dominique-áhrifum, sem hefur staðið í bréfaskriftum við Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, fundaði í dag með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi, Mark Flanagan og Franek Rozwadowski. Meðal þeirra voru hv. þm. Lilja Mósesdóttir, Einar Már Guðmundsson rithöfundur, Gunnar Sigurðsson leikstjóri og Ólafur Arnarson, sem m.a. er hagfræðingur og pressupenni. Þar segir að Flanagan hafi sagt að sjóðurinn teldi að sú mikla breyting sem orðið hefði á hagkerfi Íslands við hrunið mundi leiða til þess að hægt væri að ná verulega háum og viðvarandi afgangi af vöruskiptum þjóðarinnar. Því væri ekki óraunhæft að jöfnuðurinn yrði jákvæður um mörg komandi ár þó að slíkt hefði aldrei fyrr gerst á lýðveldistímanum. Og ég vil leggja áherslu á að þetta er svona í anda þessarar jákvæðu og sérkennilegu kraftaverkaspár Seðlabankans um hvernig okkur muni ganga á næstu árum.

Síðan er vitnað beint til Flanagans eða líklega er vitnað til Ólafs í orðastað Flanagans og hér segir:

„Lágt gengi krónunnar, sem líklegt væri að héldist lágt í langan tíma, áratug eða meira, mundi enn fremur stuðla að jákvæðum vöruskiptajöfnuði. Eftir töluverðar umræður um málið kom loks skýring frá Flanagan um það hvernig menn hefðu reiknað út væntanlega vöruskiptajöfnuð. Hann sagði að menn hefðu einfaldlega horft á þær útgreiðslur, sem við blasa vegna mikilla skulda, og reiknað út frá því hver vöruskiptajöfnuðurinn yrði að vera.“

Mig langar að velta því upp við hv. þingmann hvort nú sé ekki búið að hafa endaskipti á hlutunum, þegar menn byrja á því að reikna út hvaða mögulegar tekjur hægt er að hafa (Forseti hringir.) svo að við getum ákveðið hvaða skuldir við getum greitt eða öfugt.