138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:26]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hér kom fram mjög áhugaverður punktur frá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur. Ég tel raunar fulla ástæðu til þess að hæstv. forseti líti sérstaklega á þetta mál, það er þess eðlis. Eins og umræðan hefur þróast, því miður, sýnist mér að allar líkur séu á því að eitthvað sé til í þessu hjá hv. þingmanni. Raunar var það nú svo að til stóð að keyra þetta mál í gegn án þess að skoða þessi grundvallaratriði og hæstv. viðskiptaráðherra lýsti því yfir á fundi í útlöndum að frumvarpið færi í gegn óbreytt — hæstv. viðskiptaráðherra sem er ekki einu sinni þingmaður og ætti þar af leiðandi ekki að geta sagt fyrir um það hvað þingið gerir. Þessi svokallaði ópólitíski ráðherra fullyrti að þingið mundi samþykkja samningana óbreytta og það stóð svo sannarlega til að gera það, því miður. En með samstöðu stjórnarandstöðunnar hefur nú tekist að ná því í gegn að 16 grundvallaratriði málsins verða skoðuð og ég vona að það verði gert til þrautar því að ekki veitir af.