138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:52]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er algjörlega málið. Þótt við séum ung og reynslulaus, að mati hæstv. fjármálaráðherra, get ég fullvissað hæstv. fjármálaráðherra um að við erum orðin stór. Við þolum alveg að fá stóru fréttirnar. Við viljum frekar láta rífa plásturinn af í einum rykk en að mjatla hann af okkur sem tekur miklu lengri tíma og gerir engum gagn. Þetta er orðið svo þreytandi. Það er orðið svo þreytandi að þetta mál skuli vera þannig að við stöndum hérna dag eftir dag og rífumst innbyrðis og gerum með því ekkert annað en að styrkja málstað Breta og Hollendinga. Þá koma ummæli eins og höfð eru eftir hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra í heimsblöðunum: Ríkisstjórnin mun ná þessu máli í gegn, þetta er bara spurning um tíma. Og það verður óbreytt.

Maður sem segir slíkt er að mínu viti (Forseti hringir.) ekki starfi sínu vaxinn sem ráðherra og ætti bara að snúa sér að fræðimennskunni aftur. (Forseti hringir.)