138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:30]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svar hennar. Ég vil taka það fram að ég er ekki alveg sannfærð um að forustumenn stjórnarflokkanna hafi séð nokkurt ljós vegna þess að samkomulag sem var undirritað í gærkvöldi var að frumkvæði og vegna mikillar vinnu formanna stjórnarandstöðuflokkanna og forseta Alþingis. Ég vil að það liggi algjörlega fyrir að það samkomulag var undirritað við forseta Alþingis og ég tel að blekið hafi varla verið orðið þurrt þegar þeir sem eru í forustunni voru farnir að hafa einhverjar efasemdir um þetta. Þarna kemur fram að það var alls ekki búið að vinna þetta nógu vel og með hverjum deginum, við höfum séð þetta svo vel undanfarið, hafa komið fram nýjar upplýsingar um að staða Íslands er mun verri en menn voru tilbúnir til að trúa þegar við samþykktum þetta mál 28. ágúst. sl.

Mig langar að vitna í grein eftir Kenneth Rogoff, sem er fyrrum aðalhagfræðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og Carmen Reinhart en þau eru kennarar og prófessorar við Harvard-háskóla. Þau hafa verið að rannsaka efnahagskreppur og í niðurstöðum þeirra kemur mjög skýrt fram hvað það skiptir miklu máli að fara varlega þegar verið er að taka bindandi ákvarðanir. Áhrif kreppu taka töluvert langan tíma að koma fram og ein af niðurstöðum þeirra er sú að skuldir ríkissjóðs aukist að meðaltali um 86%. Það má segja að við séum lifandi sönnun á því, fórum úr 20% og upp í u.þ.b. 120% samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum í dag. Þau segja að meðaltali yfir þrjú ár, þannig að töluvert á eftir að bætast við skuldir ríkissjóðs áður en yfir lýkur.

Þau beina líka sjónum að húsnæðisverði, (Forseti hringir.) og tala um atvinnuleysi, þannig að við erum ekki komin með þessar upplýsingar. Ég mundi raunar vilja hvetja til þess að forseti Alþingis mundi jafnvel skoða það tilboð sem (Forseti hringir.) stjórnarandstaðan lagði fram í gær um að fresta þessari umræðu þar til við fáum betri upplýsingar.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill biðja þingmenn um að virða tímamörk.)