138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

breytingar laga vegna frumvarps um þjónustuviðskipti á innri markaði EES.

278. mál
[17:31]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna frumvarps til laga um þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins, 278. mál á þingskjali 322.

Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi sem við ræddum rétt áðan til laga um þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins en með því er verið að innleiða í íslenskan rétt efnisákvæði tilskipunar nr. 2006/123, um þjónustu á innri markaðnum. Ákvæði hennar kveða á um að hvert og eitt ríki yfirfari löggjöf til að kanna hvort hún stangast á við ákvæði tilskipunarinnar. Hvert og eitt íslenskt ráðuneyti fór yfir löggjöf á sínu sviði og er niðurstöðu þeirrar yfirferðar að finna í frumvarpi þessu.

Lagt er til að lögum nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, verði breytt þannig að skilyrðið sem kveður á um að búseta á Íslandi sé forsenda rekstrarleyfis samkvæmt lögunum gildi ekki um ríkisborgara og lögaðila innan EES, aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyinga. Lagt er til að sams konar breytingar verði gerðar á lögum nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, lögum nr. 145/1994, um bókhald, og lögum nr. 64/2000, um bílaleigur. Að sama skapi er lögheimilisskilyrði fellt niður í lögum nr. 36/1994, um húsaleigu.

Samkvæmt núgildandi vopnalögum skal beina umsóknum um leyfi til lögreglustjóra í því umdæmi sem umsækjandi á lögheimili. Það gerir það að verkum að eingöngu þeir sem eiga lögheimili á Íslandi geta sótt um leyfi, en það skilyrði er ósamrýmanlegt tilskipuninni. Af þeim sökum er lagt til að í þessum tilfellum skuli beina umsókn um leyfi til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Með breytingu á lögum nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, er lagt til að efnahags- og viðskiptaráðherra hafi heimild til að ákveða að einn sýslumaður veiti leyfi til sölu notaðra ökutækja og leyfi til uppboðsstjóra í stað þess að hver og einn sýslumaður veiti leyfi í sínu umdæmi. Er slík tilfærsla til einföldunar og hagræðingar.

Í lögum nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur, og lögum nr. 64/2000, um bílaleigur, er lagt til að orðalagi, hvað varðar starfsábyrgðartryggingar, verði breytt og allur vafi tekin af um það að heimilt er að taka starfsábyrgðartryggingu hjá öðrum vátryggingarfélögum en íslenskum, hafi umrædd félög öðlast heimild til að veita þjónustu hér á landi samkvæmt lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi.

Lagt er til að tímabinding leyfa samkvæmt lögum nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, og samkvæmt lögum nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, verði felld niður en þau eru nú veitt til fimm ára í senn.

Að lokum er lagt er til að lögin öðlist gildi 28. desember 2009 en þann dag skal vera búið að innleiða tilskipunina í landsrétt.

Ég mælist til þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar.