138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu en hún sagði að stjórnarliðar gerðu sér ekki grein fyrir vandanum. Ég held að það eigi vissulega við um suma þeirra, að þeir sjá milljarð eins og milljón og það sé sama sem hjólbörur eða eitthvað svoleiðis. Þeir gera engan mun á þessum hugtökum og halda að þetta sé eitthvað „easy“ sem menn geti bara sleppt sisvona.

Ég held að margir þeirra geri sér grein fyrir vandanum en lenda þá í fyrirbæri sem Þjóðverjar uppgötvuðu í stríðinu sem heitir Wunderwaffe á þýsku, eða undravopnið. Þegar menn eru komnir í vonlausa stöðu, sjá enga útleið, bíða þeir eftir undravopninu. Og Þjóðverjar héldu áfram að berjast, ungt fólk var sent til að verja einhverja brú sem var gjörsamlega vonlaust og hafði engan tilgang en það beið eftir því að klukkan ellefu átti að koma undravopn. Þetta uppgötva menn líka, þeir sem hafa lent t.d. í gjaldþrotum og slíku, að þá fer heilinn í fólki að trúa einhverju öðru en er, af því að hann ræður ekki við vandann. Ég held að ansi margir stjórnarliðar séu haldnir þessu heilkenni eða einkenni, þeir sjá vandann og þeir geta ekki ráðið við að leysa hann. Þeir standa frammi fyrir því að fyrsta vinstri stjórnin falli ef þeir samþykkja þetta ekki og þeir eru í vonlausri stöðu. Þess vegna vilja þeir bara sjá þetta fyrir aftan sig, bara klára þetta, sjá þetta fyrir aftan sig og „den tid den sorg“, fyrirgefðu, frú forseti, þegar þar að kemur leysum við það. Það er einmitt þetta sem er svo hættulegt, þessi hugsun „það reddast“ hefur verið allt of algeng á Íslandi.