138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að reyna að svara hv. þm. Illuga Gunnarssyni betur en ég náði að gera í fyrra andsvari mínu, vísa ég til þess sem ég sagði áðan í svari til hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, að ég get mér þess til, þegar ég er að reyna að velta þessu fyrir mér, að alla vega í röðum hv. þingmanna stjórnarflokkanna búi sú von, a.m.k. hjá sumum þeirra, að við munum aldrei þurfa að borga þetta, að við verðum í svo góðri stöðu eftir sjö ár, einhverri góðri stöðu sem við erum ekki í núna, sem geri okkur kleift að breyta samningunum akkúrat þegar við eigum að fara að borga. En ég verð hins vegar að segja að miðað við framgöngu breskra og hollenskra stjórnvalda og raunar alþjóðastofnana líka, hef ég enga trú á að svo verði, því miður.