138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þögn stjórnarliða og sérstaklega hæstv. ráðherra er hrópandi. Til dæmis hefur hæstv. dómsmálaráðherra sem á sæti í ríkisstjórn aldrei nokkurn tímann tjáð sig um Icesave, hvorki í sumar né nú. Hún kann að telja að þar sem hún er ekki kosin og kjörin á Alþingi eigi hún ekki að tjá skoðun sína en hún er samt sem áður mjög stór þáttur í ákvarðanaferlinu því hún hefur sitt atkvæði á ríkisstjórnarfundum. Gylfi Magnússon, sem er hæstv. efnahagsráðherra, hefur ekki tjáð sig nema í andsvörum um þetta mál. Ég skil ekki hvernig hæstv. efnahagsráðherra ríkisstjórnarinnar ætlar að láta þetta stóra efnahagsmál fara í gegn án þess að nokkur viti um afstöðu hans eða hvort hann hafi yfirleitt vit eða skoðun á málinu. Þetta er með ólíkindum, frú forseti.

Ég er búinn að lista upp hverjir hafa tjáð sig í málinu og hverjir ekki. Það er áberandi að það eru hv. þingmenn stjórnarliða og ráðherrar sem ekki hafa tjáð sig og því verður maður eiginlega að geta sér til um afstöðu þeirra. Ég ætla að reyna að gera það og reyna að særa þá í ræðustól þannig að við fáum að heyra afstöðu þeirra.

Hv. þm. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar, hefur ekki tjáð sig í þessu nýja máli en reyndar skilst mér að það hafi kannski verið veikindi. Hann gæti komið á mánudag því þá verður umræða og ég skora á hv. þingmann að halda ræðu og segja okkur hver afstaða hans er til málsins, hvort hann ætli að greiða atkvæði með því eða móti eða sitja hjá. Einnig af hverju hann ætli að greiða atkvæði með því ef hann skyldi gera það. Ég hefði sérstakan áhuga á því að hv. formaður efnahags- og skattanefndar Alþingis léti okkur vita um það því þetta mál varðar þá nefnd mjög mikið.

Til þess að geta mér til um afstöðu þingmannsins fór ég í gegnum ræður hans frá í sumar. Þá hélt hann eina ræðu og kom tíu sinnum upp í andsvar en hefur aldrei talað núna í haust. Í einu andsvarinu segir hann að hann treysti því að við getum staðið við skuldbindingarnar ef hér verði hagvöxtur upp á 3% á ári næstu 15 árin, annars ekki. Það er ekki lítil forsenda. Þetta er akkúrat það sem efnahagslegu fyrirvararnir gerðu í sumar. Ég hefði sérstakan áhuga á því að heyra í hv. þm. Helga Hjörvar nú þegar búið er að útvatna og þynna þessa fyrirvara þannig að þeir eru gjörsamlega haldlausir. Það verður borguð til baka hver einasta evra og hvert einasta pund þótt það taki þjóðina 100 ár. Ég vil spyrja hv. þingmann að þessu. Mér finnst að bæði mér og kjósendum Samfylkingarinnar, sem og kjósendum almennt og öllum landsmönnum, komi við hvað hv. formaður efnahags- og skattanefndar hefur um málið að segja.

Hv. þingmaður sagði í ræðu 21. ágúst sl., eftir að farið var að vinna að þessum fyrirvörum, með leyfi frú forseta:

„Icesave-málið snýst auðvitað fyrst og fremst um ábyrgð.“ — Þá er gripið fram í: Ríkisábyrgð. — „Það snýst um ríkisábyrgð já, fjárhagslega ábyrgð en það snýst líka um ábyrgð þjóða, það snýst um siðferðilega ábyrgð, um pólitíska ábyrgð, um ábyrgð stjórnmálanna og viðskiptanna.“

Þetta sagði hv. þingmaður í sumar og svo hélt hann áfram, með leyfi frú forseta:

„Við erum sem þjóð oft og tíðum óttaslegin eftir hrunið um framtíðina. Það er ekki nema eðlilegt að þegar traust manna hefur horfið meira og minna, þegar kerfið hefur hrunið að þá óttist menn um framtíð sína og ég held að það hafi kannski verið stærsta áhyggjuefni manna, þ.e. getum við borgað þetta? Um það fengum við að fjalla nokkuð í efnahags- og skattanefnd. Það er alveg ljóst að hér er um gríðarlega miklar skuldbindingar að ræða.“ — Ég ætla að endurtaka þetta, frú forseti: Það er alveg ljóst að hér er um gríðarlega miklar skuldbindingar að ræða. — „Eins og menn geta lesið um í umsögn meiri hluta efnahags- og skattanefndar eru forsendurnar fyrir því að hér verði næstu 15 árin sambærilegur hagvöxtur við það sem verið hefur síðustu 15 ár. Ég tel að sá efnahagslegi fyrirvari sem hv. fjárlaganefnd hefur sett við samningana taki einmitt mið af þessu og gangi mjög langt í því að tryggja það að hér verði efnahagslegar forsendur fyrir þeim greiðslum sem við þurfum að inna af hendi.“

Hvað er hv. þingmaður að segja þarna? Hann segir að efnahagslegu fyrirvararnir tryggi okkur í þessu máli, þá erum við að tala um það eins og það var samþykkt sem lög frá Alþingi.

„En um leið og sá fyrirvari gengur mjög langt held ég að viðsemjendur okkar hljóti að fallast á að hann sé innan marka samningsins vegna þess að auðvitað er það þannig að það greiðir engin þjóð meira en hún getur.“

Þetta sagði hv. þm. Helgi Hjörvar. „Það greiðir engin þjóð meira en hún getur.“ Nú er búið að kippa þessu öllu í burtu, frú forseti. Mig langar til að heyra hvað hv. þm. Helgi Hjörvar hefur um þetta að segja að þessu breyttu. Síðan segir hann að fyrirvararnir sem nú eru komnir inn í samningana séu að mörgu leyti fyrst og fremst miklu betur útfærðir.

Nú er ég að reyna að giska á afstöðu hv. þm. Helga Hjörvars. Ég verð hreinlega að giska á hana því hann er ekki mættur hingað sjálfur. Ég hugsa að hann hlýði flokksaga. Hann langar til að ganga í Evrópusambandið, hann veit að Bretar og Hollendingar þurfa að samþykkja aðildarbeiðni okkar að Evrópusambandinu og þess vegna hlýðir hann flokksaga, frú forseti. Það er dapurlegt að segja þetta en svona held ég að þetta sé. Auðvitað gæti hv. þingmaður komið hingað upp og ég vænti þess að hann komi þegar umræðan heldur áfram — hann var nú hérna reyndar í dag — og útskýri fyrir okkur hvernig hann ætli að fara að því að greiða t.d. vextina þegar enginn hagvöxtur er. Hvernig ætlar hann að afla gjaldeyris til þess þegar enginn hagvöxtur er? Hvernig ætlar hann að tryggja sína þjóð eins og við gerðum í sumar? Hún er ekki lengur tryggð.

Ég hugsa að hann hafi líka mikinn hug á því að ríkisstjórnin haldi áfram. Þessi vinstri stjórn, ein sú fyrsta, er komin og við sjáum skattalagatillögurnar, það er kominn margþrepa tekjuskattur sem er draumur vinstri manna. Það er fínt. Fyrst það er þeirra draumur og þeir fengu kosningu til þess þá gera þeir það. Ég vil þó taka fram að ég sé engin tengsl þarna á milli. Ég kæri mig ekkert endilega, frú forseti, um að fella þessa ríkisstjórn. Ég hef margoft sagt að það er ekki til bóta að bæta pólitískri óreiðu við efnahagslega. Ég held að menn eigi ekki að tengja þetta saman. Eini stjórnmálamaðurinn á Íslandi sem hefur tengt þetta saman, hver skyldi það nú vera? Það er skipstjórinn á skútunni. Það er verkstjórinn, hæstv. forsætisráðherra. Hæstv. forsætisráðherra ætlar að fella ríkisstjórnina ef þetta verður ekki samþykkt. Bíðum nú við, hvað er þetta nú aftur? Er þetta ekki einhvers konar kúgun eða hótun? Menn geta velt því fyrir sér.

Nú er ræðutíma mínum lokið en ég ætlaði að ræða um afstöðu hv. þm. Jónínu Rósar Guðmundsdóttur. Hún hefur aldrei talað í seinni umræðu. Hún hélt eina ræðu um fyrra málið sem er orðið að lögum en aldrei síðan. Ég er alveg gáttaður. Er hún sammála þessu eða ekki? Er þetta óbreytt eða hvað er eiginlega að gerast? Mig langaði líka sérstaklega til að ræða við hv. þm. Atla Gíslason, sem segir í Morgunblaðinu á síðu 22 að ekkert nýtt hafi komið fram. Bíðum nú við, það er verið að ræða um stjórnarskrárbrot. Sigurður Líndal er nú ekki ómerkilegur lögfræðingur. Það er ný tilskipun sem lítið hefur verið rætt um hingað til og hv. þingmaður hefur ekki rætt hana. Það er tilskipunin sjálf, (Forseti hringir.) en ég verð sjálfsagt að ræða hana seinna, frú forseti.