138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[15:24]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kann ekki að svara nákvæmlega fyrir það hvar frumvarpið um framhaldsfræðslu er statt en náðst hefur afskaplega góð samvinna milli mín og menntamálaráðherra um framkvæmd þessara mála og um aðgerðir. Við byrjuðum í haust með aðgerðum varðandi hópinn sem á rétt á lánshæfu námi. Við höfum síðan verið með hugmyndahóp að störfum sem hefur lagt fram hugmyndir um úrræði til að tengja saman úrræði Vinnumálastofnunar annars vegar og menntakerfisins hins vegar og Starfsmenntamiðstöð atvinnulífsins. Við erum að setja á fót verkefnastjórn sem mun fara yfir það verkefni og mun hafa yfirumsjón með því að fjárfesta í þessu unga fólki. Þar verða fulltrúar frá öllum þessum aðilum enda er það mjög mikilvægt til að við nýtum allt kerfið sem allra best, bæði hið almenna framhaldsskólakerfi og starfsmenntakerfi atvinnulífsins, því að ólíkar lausnir gagnast ólíku fólki.

Vinnumálastofnun er byggð upp miðað við mikið góðærisástand. Þar er ekki margt starfsfólk á lausu til að sinna erfiðum verkefnum af þessum toga. Stofnunin hefur satt að segja átt fullt í fangi með að ná að halda utan um skráninguna í því mikla flæði sem kom og þar er ekki fólk til reiðu sem hægt er að flytja úr verkefnum í önnur, ráðgjafar eru allt of fáir. Lausnin sem við höfum í þessu efni er sú að við ætlum að nýta þann sparnað, sem er forsenda fjárlagafrumvarpsins, í úrræðin þannig að ekki verði um raunaukningu ríkisútgjalda að ræða frá því sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi. Við ætlum að nýta sparnaðinn í úrræðin og þar með vinnum við hraðar á skránni. Það er ekki þannig að okkur séu allar bjargir bannaðar við að reyna að leysa þetta mál. Við verðum að taka þá áhættu að efna til einhvers kostnaðar til að vinna með þetta fólk (Forseti hringir.) og hjálpa því áfram til verka.