138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[15:33]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að gera eins og hv. þingmaður benti á, að nýta nærsamfélagið eins og kostur er við þessar erfiðu aðstæður. Það erum við að gera. Við erum í nánu sambandi við verkalýðshreyfinguna um það hvernig hún getur komið að þessu máli. Ég held ekki að lausnin á þessum erfiða vanda sé að við afneitum okkar samfélagslegu ábyrgð á málinu. Ríkið ber á þessu ábyrgð. Við verðum að hafa Vinnumálastofnun sem samræmir aðgerðir og tekst á við þennan brýnasta velferðarvanda sem þjóðin stendur frammi fyrir. En við eigum að kalla alla til samstarfs og leita leiða til að nýta nærsamfélagið eins og kostur er, verkalýðsfélögin, sveitarfélögin. Við erum í sambandi við nokkur sveitarfélög, að leggja grunn að þjónustusamningum við þau, um þjónustu atvinnulausra, o.s.frv. Við ætlum að vinna með Rauða krossinum, höfum hafið samræður við þá um aðkomu þeirra ágætu samtaka að málinu þar sem jafningjafræðsla yrði boðorðið. Við værum þar jafnvel að horfa til þess að slá tvær flugur í einu höggi þar sem bæði yrði ráðið fólk af atvinnuleysisskrá til að sinna öðrum atvinnulausum o.s.frv.

Varðandi vinnuréttarsambandið er það að sumu leyti skýrt í frumvarpinu vegna þess að nú er gert ráð fyrir að samningur verði gerður milli aðila um minnkað starfshlutfall til ákveðins tíma í senn. Þar af leiðandi yrði tekið á öllum vafaatriðum hvað það varðar, hvers eðlis vinnuréttarsambandið er. Þannig að það sé ekki þannig, eins og kannski hefur brunnið við, að frekar einfalt sé að lækka alla um 10%, heldur þarf að gera samning milli launþega og vinnuveitenda um tímalengd slíks samnings, enda ekki eðlilegt að setja fólk í þá stöðu að vera bara lækkað og eiga engan sjálfstæðan rétt á því að taka það upp við sinn vinnuveitanda hvenær þessum tíma ljúki.