138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[18:43]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir góða umræðu, hér hefur margt athyglisvert komið fram. Fyrst vil ég víkja að því sem hv. þm. Pétur H. Blöndal rakti síðast og varðaði endurhæfingu og breytingar á fyrirkomulagi endurhæfingar með nýju starfshæfnismati. Það verkefni er í fullum gangi í félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Forræði nefndarinnar um starfsendurhæfingu var flutt þangað með nýrri ríkisstjórn. Við erum að undirbúa lagabreytingar, eins og ég nefndi í framsöguræðu, á vorþingi, og svona fikra okkur í áttina að því. Hins vegar eru áhyggjur af því að upptaka nýja starfshæfnismatsins muni verða kostnaðarsöm en við erum að reyna að finna leiðir til að gera þetta samt á okkar (Gripið fram í.) tímum, enda er ég sannfærður um það og er eiginlega alveg sammála hv. þingmanni um það að þetta mun spara mikinn kostnað og auka mjög lífsgæði þeirra sem glíma við örorku. Og þetta fellur afskaplega vel að allri þeirri stefnumörkun sem við erum með í öllum málaflokkum velferðarþjónustunnar. Við viljum styðja fólk til sjálfsbjargar, við viljum auka virkni fólks og ýta undir getu þess til þátttöku í daglegu lífi.

Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson nefndi tvo þætti varðandi uppbyggingu vegna málefna aldraðra og nefndi þann freistnivanda að menn mundu freistast til að nota Framkvæmdasjóð aldraðra í rekstur hjúkrunarheimila umfram það sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Ástæðan fyrir því að þetta er svona þröngt orðað í frumvarpinu er vegna þess að ég hafði fulla sýn á þessari freistingu og þess vegna er þetta bundið skilmerkilega við tvö tiltekin ár. Ég velti því fyrir mér hvort ekki mætti hnykkja á þessu í meðförum nefndarinnar og segja „samkvæmt samningum við félags- og tryggingamálaráðuneytið“ þannig að það væri alveg ljóst að þetta væri ekki opin heimild, heldur byggði á þessu tiltekna uppbyggingarátaki sem verið er að horfa á núna og við horfðum bara á það að létta í þröngum skilningi þessum rekstrarkostnaði af ríkissjóði á þessum erfiðustu árum.

Hins vegar kom mjög athyglisverð ábending varðandi orðalagið á heimildinni fyrir Íbúðalánasjóð til að lána. Almennt mundi ég freistast til að segja að maður vildi takmarka þessa heimild en þar sem hún er bundin við sveitarfélög hefur verið litið svo á að við værum að takmarka þetta alfarið við að sveitarfélögin bæru fulla ábyrgð á lántökunum. Við vorum reyndar að því komin að haga þessu aðeins öðruvísi í frumvarpinu en ég ætlaði svona að deila því með nefndinni í vinnslu hennar að mér þætti ekki verra að útvíkka ákvæðið þannig að það tæki líka til búsetuúrræða fyrir fatlaða. Mér hefur líka verið bent á að það kunni að vera sveitarfélög sem ekki eru það stór að þau hafi nauðsynlega þörf fyrir hjúkrunarrými, þau kunni að hafa afmarkaða þörf fyrir kannski bara eina eða tvær eða fjórar þjónustuíbúðir og þá sé eðlilegt að hægt sé að lána til þeirra til þess umbreytingaverkefnis til að greiða fyrir öldrunarþjónustu í heimabyggð og halda niðri kostnaðinum og uppbyggingarþörf í smáum sveitarfélögum. Ég held að við ættum að reyna að útfæra þetta þannig að þetta væri sveigjanlegt en þó ekki of opið en gera alltaf sem skilyrði, og það hefur verið undirstrikað í öllum samtölum mínum við sveitarfélögin, að ábyrgð sveitarfélaganna verði að vera bak við, því að við erum að fara að lána 100% og þá verður ábyrgð þeirra að vera bak við. Þetta er auðvitað ekki til að nota í almenna uppbyggingu félagslegs íbúðarhúsnæðis eða slíks, við erum að horfa á grundvallarfélagsþjónustuverkefni í þröngum skilningi þarna.

Mikið hefur verið rætt um fæðingarorlofið að vonum. Ég verð að segja að mér finnst sú umræða hafa algjörlega sannað þá tiltrú sem ég hafði á Alþingi Íslendinga að það væri rétt með svona flókið mál, þar sem mörg sjónarmið rekast á um það hvernig sé best að taka á aðhaldsþörf í þessum málaflokki, að ætla þinginu og þingnefndinni að fjalla um málið með opnum hætti. Mér fannst t.d. umræðan sem varð á milli hv. þingmanna, Guðmundar Steingrímssonar og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, til vitnis um það hversu flókið og snúið þetta verkefni er. Þau höfðu bæði rétt fyrir sér þegar þau töluðu um hvernig best væri að snúa sér í þessum niðurskurði, hvaða sjónarmið menn ættu að láta vera í forgrunni. Það er þess vegna sem ég held að svo mikilvægt sé að við setjumst yfir þetta með opnum huga.

Hér var spurt hvort menn ættu ekki að spara annars staðar og vitnað þar í orð mín um aðhaldsstigið væri ekki nægt annars staðar í ríkiskerfinu. Þar var ég auðvitað að höfða til þess að mér blöskraði svolítið að sjá í fjárlagafrumvarpinu hve margir liðir lifðu af fyrstu umferð í niðurskurði. Hitt er svo annað mál að á næsta ári munum við þurfa að ganga enn lengra í niðurskurði. Þar munum við fara í enn harðari forgangsröðun. Þar heiti ég á hv. þingmenn að styðja ríkisstjórnina í þeim erfiðu verkefnum sem eru fram undan, því að annars verður það auðvitað þannig að aðhaldskröfurnar munu allar koma fram í almannatryggingakerfinu, í greiðslu barnabóta, í vaxtabótunum, í öllum þessum þáttum tekjutilfærslna sem gera okkur lífið bærilegt í þessu landi. Þess vegna er svo mikilvægt að við stöndum saman um það að takast á við þessa erfiðu rekstrarþætti sem auðvitað þarf að takast á við á næsta ári og verður flókið að takast á við. Það er engin patentlausn að segja: Það á bara að skera niður einhvers staðar annars staðar. Það kallar auðvitað á kostnað líka og á velferðarútgjöld o.s.frv., o.s.frv.

Við fengum í félags- og tryggingamálaráðuneytinu aðhaldskröfu upp á milli 6 og 7% á almannatryggingakerfið og allt millifærslukerfið í heild. Við forgangsröðuðum þar alveg stíft. Hér er talað um að nú sé í þriðja sinn verið að skera niður Fæðingarorlofssjóð. Þetta er í annað sinn síðan ég tók við og ég verð að segja eins og er að menn mega heldur ekki búa sér til einhverjar heilagar kýr. Þegar laun fara lækkandi almennt í landinu hlýtur að mega hrófla við hámarki greiðslna úr sjóðnum. Það segir sig eiginlega alveg sjálft að ef laun fara almennt lækkandi, meðallaun í landinu fara lækkandi, hlýtur að skapast eitthvert rúm til að draga saman í hámarkinu. Og auðvitað hefur það verið gert tvisvar núna.

Spurningin sem við stóðum frammi fyrir núna í þriðja skiptið var hvernig ætti að ná þessu, af hverju skerum við niður þarna en ekki annars staðar? Jú, það er vegna forgangsröðunar, vegna þess að við létum það mæta forgangi að skerða ekki bætur til atvinnulausra og mæta að öllu leyti því mikla flóði sem þar var, að verja lágmarksframfærslutryggingu allra lífeyrisþega upp á 180 þús. kr., verja 42% hækkun frá árinu 2007. Ég ætla alveg að taka það á mig. Það er forgangsröðun, það er auðvitað mikil forgangsröðun og það er ekki útlátalaust fyrir betur stadda lífeyrisþega, ég viðurkenni það, en í því fólst ákveðin forgangsröðun. Það er það líka þar sem um er að ræða kerfi eins og fæðingarorlofið að þá vildum við reyna að ná fram sparnaði en án þess auðvitað að vega að rótum þess. Og þá komum við aftur að því: Vegum við að rótum kerfisins með því að lækka hámarkið í greiðslunum? Ég er ekki sannfærður um að við gerum það í dag. Ég held að við höfum ekki gert það með lækkuninni, hvorki lækkuninni um síðustu áramót né lækkuninni í júní. Ég er ekki alveg sannfærður um það þegar meðallaun í landinu eru komin vel niður fyrir 400 þús. kr. að það sé einhver eðlismunur á hámarki í 300 þúsundum og hámarki í 350 þúsundum. Ég held því að þetta þurfi að ræðast fordómalaust.

Ég tek undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal að það má alveg horfa líka á hlutfallið. Ég held að eitt af því sem nefndin þurfi að horfa til er hvaða svigrúm er í stöðunni. Nú hefur í fyrsta lagi fjármálaráðuneytið fallist á að sparnaðurinn þurfi ekki allur að verða, heldur megi koma til frestun útgjalda. Maður spyr sig á móti: Ef við hugsum nýja leið til að spara en ekki fresta, hvað má hún gefa okkur lítið til að hún sé ásættanleg? Bara það t.d. að lækka hlutfallið, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á, úr 80 í 75% hjá þeim sem eru með tekjur yfir 200 þúsund kr. skilar 500 milljónum alveg örugglega á næsta ári í sparnað. Þá veltir maður því fyrir sér: Eigum við kannski enn þá inni sparnað vegna breytinganna frá í júlí? Ég tel svo vera og vonast til að verða tilbúin með talnagögn sem geti bent til þess fyrir nefndina. Svona held ég að við þurfum að vinna þetta áfram og reyna að leita að bestu leiðinni út úr þessu, en ég held að það skipti miklu máli að við áttum okkur á því líka að það er ekki hægt að losna undan þessum sparnaði með því að benda á utanríkisþjónustuna, benda á einhverja sameiningu stofnanna eða eitthvað annað slíkt sem tekur mörg ár að ná fram.

Við verðum að ná þessu út úr tekjutilfærslukerfunum núna. Það er hluti af heildarumgjörðinni í rekstri ríkissjóðs fyrir næsta ár. Þar þurfum við einfaldlega ná skástu leiðinni, þeirri sem við teljum að hafi minnst félagslegt tjón í för með sér.