138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég geri engar athugasemdir við að hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin hafi staðið sig illa eða að hún sé ekki nægilega trúverðug. En ég geri athugasemdir við það þegar hv. þingmenn koma hér eins og menn hafa gert tvisvar í dag og beinlínis sagt að ráðherrar hafi logið, að ráðherrar hafi vísvitandi leitt umræðuna afvega. Það er bara ekki rétt. (Gripið fram í.) Ég held þessu fram, já.

Sá sem kann þó mannasiði í þessum sal, og það er þó alla vega einn, er hv. formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Ég virði það við hann að hann lætur þó ekki hitann kveikja þannig upp í sér í þessari umræðu að hann komi, kalli menn lygara og fari hérna eins og götustrákur með alls konar slengiyrði og köpuryrði af þessu tagi. Ég virði það við hann. Ég geri engar athugasemdir við að hann segi að ráðherrarnir hafi staðið sig illa, það eru bara hans forréttindi að hafa þá skoðun.

Varðandi hver það var sem stoppaði endurskoðun á sínum tíma liggur það bara ljóst fyrir að t.d. í hinum norska þingtexta kemur nánast fram berum orðum að það sé nauðsynlegt að Íslendingar ljúki þessu máli til þess að þeir geti afgreitt lán sín. Þegar utanríkisráðherrar Noregs, Svíþjóðar og Finnlands voru spurðir að þessu á blaðamannafundi svöruðu Carl Bildt og Alexander Stubb, utanríkisráðherrar Svíþjóðar og Finnlands, með þeim hætti að svo væri ekki. En textar þingskjala þeirra voru þannig að þeir gátu alveg sagt það, þeir gátu alveg haldið því fram þó að það sé líka hægt að lesa það öðruvísi. Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, svaraði bara sannleikanum samkvæmt miðað við stöðu textans í norska þingskjalinu. Það varð til þess að Stöð 2 sló upp frétt sem ég veit að hv. þingmaður hlýtur að kannast við, misvísandi yfirlýsingar. Þessa þingtexta fór ég í gegnum fyrir hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson og varaformann Sjálfstæðisflokksins á fundi í utanríkismálanefnd (Forseti hringir.) þannig að þetta á ekki að koma neinum á óvart.