138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er dimmur dagur og ég velti því fyrir mér hvenær þeir ágætu forustumenn ríkisstjórnar, sem hér töluðu þegar við lukum þessari vinnu í sumar og sögðu að sá gjörningur væri innan samkomulags, ætla að útskýra fyrir þjóðinni hvort þeir skrökvuðu vísvitandi eða vissu ekki um hvað þeir voru að tala. Ef þeir ynnu að samkomulagi eins og forustumenn ríkisstjórnar lofuðu, af hverju erum við þá að fara með þetta mál núna? Það er augljóst að hér hafa menn lyppast niður hreint og klárt og það vita allir. Þessi eilífi söngur hv. stjórnarþingmanna um að þeir geti ekkert að þessu gert vegna þess að það sé svo erfitt að vera í ríkisstjórn, er til þess fallinn að menn hljóta að hugsa hvort þeir hafi virkilega hug á því að vinna þjóð sinni gagn með því að vera í ríkisstjórn. Ég segi nei.