138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

netundirskriftir vegna Icesave.

[10:31]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Í stefnuskrá Vinstri grænna kemur mjög vel fram mikill stuðningur við þjóðaratkvæðagreiðslu og að leita eigi í auknum mæli til þjóðarinnar um stór og mikil mál. Það kemur líka fram í máli samfylkingarmanna sérstaklega fyrir kosningar. Nú ber svo við að þverpólitískur hópur, þvert á alla flokka, hefur hafið undirskriftastöfnun til að stuðla að þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi Icesave. Við þekkjum þennan hóp, þetta er Indefence-hópurinn. Hann er þverpólitískur og hefur gengið vel í sinni undirskriftasöfnun. Ríkisstjórninni líður svolítið illa gagnvart því og það berast fréttir af óprúttnum einstaklingum sem eru að mínu mati að reyna að gera þessa undirskriftasöfnun allt að því ómerkilega. Það vill svo til að þessir óprúttnu aðilar koma m.a. frá Ríkisútvarpinu. Við vitum það vegna frétta frá Fréttablaðinu en svipað hefur líka heyrst frá fólki innan Stjórnarráðsins. Þá hlýt ég að spyrja ráðherra upplýsingamála og fjölmiðlamála hver skoðun hennar er á þessu máli, hvort hún ætli að beita sér fyrir því að þetta mál verði tekið upp bæði innan ríkisstjórnar og í þeirri undirstofnun sem Ríkisútvarpið er gagnvart ráðherra. Ég tel mikilvægt að fá fram hvort hún muni beita sér sérstaklega fyrir því að fram fari rannsókn á þessu máli því að ég er ekki bara að hugsa um þetta mál. Ég tel að það séu yfirgnæfandi líkur að í framtíðinni muni aukin krafa verða gerð í þá veru að það verði þjóðaratkvæðagreiðsla um margvísleg málefni. Þá ber ríkisvaldinu skylda til að tryggja að framgangur undirskriftalista, eins þess sem Indefence-hópurinn er með, sé ekki truflaður eða reynt að menga hann í Stjórnarráðinu, sérstaklega þegar um óþægileg mál er að ræða gagnvart ríkisstjórninni. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvað ætlar hún að gera í þessu máli sem ég lít mjög alvarlegum augum?