138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:09]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður veit lækkuðu skattar hér — hann talar um einfalt skattkerfi og það hefur einfaldlega valdið því að við höfum verið að hlífa þeim sem mestar hafa tekjurnar á kostnað þeirra sem hafa lægri tekjur. Þetta veit hv. þingmaður og algjör óþarfi að ræða það neitt frekar.

Það er annað sem kom mér á óvart við að sjá hv. þingmann á þessu nefndaráliti. Hann fjallar hér um Sjálfstæðisflokkinn og Samfylkinguna, að þessir flokkar hafi aðhyllst hægri stefnu og einkavæðingu og annað þvíumlíkt, en nú liggur ljóst fyrir að í nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar, 1. minni hluta, er á engan hátt nokkur gagnrýni á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða þann bratta niðurskurð sem nú er í gangi. Þvert á móti er í nefndarálitinu gagnrýni á að heldur hafi verið dregið úr þessum bratta niðurskurði, einmitt til þess að verja heilbrigðiskerfið, menntakerfið og grunnstoðirnar. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann hver hans skoðun sé varðandi þennan bratta niðurskurð og hvort hann sé sammála því sem kom fram í nefndarálitinu sem hann sjálfur er á — gagnrýni á að dregið hafi úr niðurskurðinum á milli 1. umr. og 2. umr.