138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[19:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þetta var mjög frískur tónn og ég man ekki eftir því að við sjálfstæðismenn höfum fram til þessa verið skammaðir úr þessari átt. Það hefur verið krafan hjá Samfylkingunni og Vinstri grænum að auka ríkisútgjöldin enn frekar og ef menn hafa tekið á agaleysi hafa þeir verið skammaðir blóðugum skömmum úr þeirri áttinni. Ég fagna því, að ég tali nú ekki um að vitna í Göran Persson. Hann lagði að vísu áherslu á tvennt fyrir samfylkingarmenn, alls ekki stjórnarkreppu og alls ekki kosningar, en það er eins og það varð. Hv. þingmaður fór alveg rétt með.

Nú erum við hins vegar komin að spurningunni um hvað við ætlum við að gera. Hv. þingmaður hefur mikið um það að segja og spurning mín er einföld. Hún er um tvennt:

1. Hvað vill hv. þingmaður gera varðandi kragaskýrsluna sem var kynnt og þær hugmyndir sem þar eru uppi? Við þurfum að taka ákvörðun um það á næstu dögum. (Forseti hringir.)

2. Hvað vill hv. þingmaður gera varðandi færslu á hjúkrunarheimilum frá heilbrigðisráðuneytinu til félagsmálaráðuneytisins?