138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[22:12]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þær tölur sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson las hér upp koma fram í frumvarpinu. Ég vil benda hv. þingmanni á þá staðreynd sem blasir við, þ.e. að í fjárlagafrumvarpinu er gat sem þarf að brúa, í fjárlögum 2010, það fer ekki frá okkur. Icesave fer ekki frá okkur. Þetta er fórnarkostnaðurinn sem við verðum að greiða og þetta eru staðreyndir. Mér finnst sárt að draga þurfi úr fjárveitingum og veita þetta aðhald í heilbrigðisþjónustunni. Mér finnst enn sárara að sitja uppi með þennan reikning sem við hefðum aldrei átt að borga af því að aldrei hefði átt að heimila ógæfuför Icesave-reikninganna.