138. löggjafarþing — 44. fundur,  15. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[12:02]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um frumvarp til fjárlaga ársins 2010 sem hefur verið til umræðu á Alþingi og í fjárlaganefnd og öðrum nefndum þingsins undanfarnar vikur og mánuði.

Fjárlaganefnd hefur haldið tugi funda um málið og tekið á móti hundruðum gesta og erinda varðandi fjárlagagerðina og haft samráð við fjölda fólks víðs vegar að úr samfélaginu í þeirri vinnu. Frumvarpið ber eðlilega merki þeirra efnahagslegu erfiðleika sem við eigum við að stríða en það ber ekki síður merki þess að verið er að feta inn á nýjar brautir við ríkisreksturinn á mörgum sviðum.

Það er skoðun mín að það frumvarp sem hér um ræðir sé bæði vandað og vel unnið og það gefur fyrirheit um betri tíma, nýjar áherslur og bætt vinnubrögð við fjárlagagerð og við stjórn ríkisfjármála og veitti svo sannarlega ekki af því.

Ég vil nota tækifærið til að þakka öllum þeim fjölmörgu sem hafa lagt sitt af mörkum við gerð þessa frumvarps og ekki síst frábæru starfsliði Alþingis sem hefur unnið gríðarlega gott og mikið starf við gerð frumvarpsins.