138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

meðferð sakamála.

83. mál
[18:34]
Horfa

Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88 12. júní 2008, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti, Valtý Sigurðsson ríkissaksóknara og Snorra Magnússon frá Landssambandi lögreglumanna.

Umsagnir bárust frá ríkislögreglustjóraembættinu, Landssambandi lögreglumanna og ríkissaksóknara.

Með frumvarpinu er lagt til að stofnun embættis héraðssaksóknara verði frestað um tvö ár, til 1. janúar 2012. Embættið átti upphaflega að taka til starfa 1. janúar 2009 en þeirri gildistöku var frestað um eitt ár vegna þeirra aðstæðna sem voru í ríkisfjármálum. Frestunin nú byggist á sömu aðstæðum og er liður í sparnaðaraðgerðum dómsmála- og mannréttindaráðuneytis.

Nefndin telur mikilvægt að ákæruvaldið geti ætíð haldið uppi faglegum gæðum í öllum málaflokkum, auk getu sinnar til að takast á við flókin og skipulögð afbrot. Þá er ákæruvaldið einn hluti af þeirri heild sem hefst með rannsókn máls. Nefndin telur því nauðsynlegt að við þær skipulagsbreytingar sem eru fyrirhugaðar hjá lögreglu, ákæruvaldi, sýslumönnum og dómstólum sé mikilvægt að haft sé í huga að þessar stofnanir þurfi að vinna vel saman. Nefndin telur að unnt sé að efla stofnanirnar ásamt því að hagræða í rekstri, m.a. með því að nýta mannauðinn betur og færa milli embætta eftir verkefnastöðu og þannig efla þjónustu við borgarana.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Ólöf Nordal og Vigdís Hauksdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Þór Saari, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu

Eftirtaldir hv. þingmenn skrifa undir nefndarálitið auk þeirrar sem hér stendur: Birgir Ármannsson, Árni Þór Sigurðsson, Valgerður Bjarnadóttir, Ásmundur Einar Daðason, Róbert Marshall og Þráinn Bertelsson.