138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

uppbygging dreifnáms og fjarnáms.

139. mál
[14:58]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Við hæstv. menntamálaráðherra áttum góðar samræður um mikilvægi dreif- og fjarnáms fyrir nokkrum vikum. Nú heyrist mér hæstv. ráðherra deila áhyggjum mínum af stöðu námsins sem ég tel mikilvægan þátt í menntakerfi okkar Íslendinga. Þessi valkostur til náms er gríðarlega mikilvægur fyrir nemendur utan höfuðborgarsvæðisins og smærri byggðarlögum og dreifbýli má þjóna á annan hátt með nýtingu dreif- og fjarnáms eins og hefur verið þróunin undanfarið. Af þessum sökum hef ég miklar áhyggjur af fyrirhuguðum niðurskurði í fjar- og dreifnámi sem kemur fram í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og er fjallað um að hluta til í Morgunblaðinu í morgun. Afleiðingarnar eru þær að ekki verður hægt að taka inn nýja nemendur um áramót og núverandi nemendur verða að hægja verulega á námi sínu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef getur jafnvel verið að kostnaður við hvern nemanda í dreifnámi sé lægri en kostnaður við nemendur í staðnámi. Því verða afleiðingar þessa niðurskurðar annaðhvort þær að nemendur hrökklast hreinlega úr námi, jafnvel nemendur sem tilheyra þeim hópum sem við teljum mikilvægt að ná til, eða fólk sem mundi annars fara á atvinnuleysisskrá, eða þeir reyna að komast í staðnám með tilheyrandi kostnaðarauka fyrir sjálfa sig, samfélagið og ríkissjóð.

Því er ljóst að dreif- og fjarnám getur til lengri tíma skilað sér í lægri kostnaði og aukinni hagkvæmni í skólastarfi án þess að koma niður á gæðum kennslunnar. Bent hefur verið á að minni skólar sem bjóða upp á dreif- og fjarnám gætu hugsanlega sérhæft sig á einhverju ákveðnu sviði og boðið upp á mun fjölbreyttara nám með notkun tækninnar í dreif- og fjarnámi. Kostir þess að efla möguleika fólks til að stunda nám í sinni heimabyggð eru einnig ótvíræðir og skipta miklu máli varðandi þau okkar sem teljum mikilvægt að styðja við möguleika fólks á að búa heima sem lengst. Hefur þróun í notkun upplýsingatækni í skólum einmitt verið hvað öflugust í tengslum við þróun fjar- og dreifnáms. Sú þekking sem byggst hefur upp á sviði upplýsingatækni í tengslum við þess háttar nám er gríðarlega verðmæt og mikilvægt að hún glatist ekki í þeim niðurskurði sem nú er fyrir dyrum í menntamálum.

Því legg ég fram eftirfarandi spurningar til hæstv. menntamálaráðherra:

1. Hver er stefna ráðherra varðandi uppbyggingu dreifnáms og fjarnáms? — Það var erfitt að fá fram nákvæmlega í þessari utandagskrárumræðu hvort ráðherrann hefði áhuga á að setja á stofn starfshóp sem mundi marka skýra stefnu.

2. Hvaða áhrif mun væntanlegur niðurskurður í fjárlögum fyrir árið 2010 hafa á þróun og uppbyggingu dreif- og fjarnáms?

Ég vil jafnframt benda á að þann 3. nóvember sl. lagði ég fram fyrirspurn til skriflegs svars frá hæstv. menntamálaráðherra þar sem ég fór fram á frekari upplýsingar um fjölda fjar- og dreifnema, aldursskiptingu og búsetu sem og kostnað við slíka kennslu í samanburði við hefðbundna kennslu.

Nú eru liðnar sex vikur frá því að fyrirspurnin var lögð fram og hvet ég hæstv. menntamálaráðherra til að kanna hver afdrif hennar hafa orðið innan stjórnkerfisins, en ráðherrar eiga (Forseti hringir.) að hafa tíu virka daga til að svara skriflegum fyrirspurnum.