138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[23:53]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel mjög mikilvægt að við höldum sveigjanleikanum sem við höfum á íslenskum vinnumarkaði og því góða samstarfi sem þar hefur tekist milli launþega og vinnuveitenda. Það er besta trygging okkar gegn atvinnuleysi vegna þess að það er ekki þannig að við höfum atvinnuleysi bara ef við göngum í Evrópusambandið. Ef við ætlum að hafa fjölbreytt atvinnulíf munum við hafa atvinnuleysi. Við erum með atvinnuleysi núna og við vorum með dulið atvinnuleysi sem við duldum með botnlausum erlendum lántökum og fölsku gengi árum saman.

Fjölþætt atvinnulíf í fjölbreyttu opnu samfélagi þýðir ákveðna hættu á atvinnuleysi og besta leiðin til að vinna úr því er sterkur vinnumarkaður. Ég blés aldrei út af borðinu og hef aldrei blásið út af borðinu hugmyndir um að aðilar vinnumarkaðarins komi í auknum mæli að atvinnuleysistryggingum. Ég hef satt að segja alltaf lagt það til að þeir kæmu að tilteknum afmörkuðum verkefnum. Ég hef blásið út af borðinu hugmyndir sem hafa verið heldur stórkarlalegar um að það sé einhver allsherjarlausn á öllu sem við glímum við í atvinnuleysistryggingunum núna að láta kerfið með manni og mús í hendur einhverra annarra. Þannig leysum við ekki málið. En ég held að það sé mjög mikils virði að taka ákveðna þætti í traustu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Við höfum verið að ræða við Samtök atvinnulífsins og erum að fara að ræða við þau meira um t.d. pláss fyrir langtímaatvinnulaust ungt fólk, þar sem fyrirtæki komi inn og styðji sérstaklega við fólk sem þarf á aðstoð að halda við að stíga sín fyrstu skref aftur á vinnumarkað. Ég tel eðlilegt að nýta net verkalýðshreyfingarinnar til að tala við félagsmenn og vera í sambandi við þá og nýta það þéttriðna net eins vel og kostur er og að semja um einstök önnur verkefni við verkalýðsfélögin eins og þau telja sig í stakk búin. (Forseti hringir.) Og þá væri það samningur milli Vinnumálastofnunar og þeirra sem þau tækju að sér á grundvelli tilgreindra viðmiða.