138. löggjafarþing — 50. fundur,  18. des. 2009.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Nú er verið að ræða skattbreytingar í nefndum þingsins og það eru 13 dagar til áramóta. Þá kemur hv. þm. Illugi Gunnarsson með hugleiðingu um það hvort skattlagning sé skynsamlegri leið en að skera niður ríkisútgjöld til að ná niður halla ríkissjóðs. Sú umræða hefði átt að eiga sér stað í október/nóvember, frú forseti, og hún hefði átt að koma fram á vegum ríkisstjórnarflokkanna. Þá hefðum við átt að segja: Hvernig ætlum við að skattleggja? Er skynsamlegt að skattleggja þjóðina meira? Eru fyrirtækin og heimilin sérstaklega vel undir það búin núna eftir kreppuna að standa undir miklum og auknum skattálögum?

Engin slík umræða hefur átt sér stað og menn keyra á einhverjar skattbreytingar þar sem mér sýnist að margir vinstri menn vildu gjarnan koma á margþrepaskatti í virðisaukaskatti og tekjuskatti. Alls konar draumar vinstri manna eru settir í framkvæmd og kreppan notuð til þess. Þetta er gert án nokkurrar umræðu um hvort það sé skynsamlegt eða ekki og núna, 13 dögum fyrir áramót, skella menn á gífurlega aukinni skattheimtu og ekki nóg með það, heldur gífurlegri flækingu. Flækjustig skattkerfisins er stórlega aukið og þeir sem eiga að framkvæma, þ.e. skattstofurnar — það á nú að sameina þær um leið — standa frammi fyrir því að þurfa að upplýsa landslýð um stórlega breyttar og flæktar skattareglur. Almenningur stendur frammi fyrir því 1. janúar, a.m.k. þeir sem greiða út laun fyrir fram, að fara að reikna tekjuskatt eftir aðferðum sem ekki er einu sinni búið að afgreiða en eru miklu flóknari en þær sem hafa þekkst hingað til. Þetta finnst mér (Forseti hringir.) mjög ámælisvert, frú forseti.