138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[14:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti og breytingartillögum sem er að finna á þskj. 495 frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar við frumvarp til laga um umhverfis- og auðlindaskatta. Frumvarpið lýtur að því að leggja gjöld annars vegar á mengandi losun gróðurhúsalofttegunda með því að leggjast á fljótandi eldsneyti og hins vegar er um að ræða auðlindagjald á kílóvattstund í raforku sem leggst á notendur raforku og leggst þar með auðvitað að mestu leyti á stóriðjuna í landinu sem er stærsti einstaki orkunotandinn í landinu.

Frumvarpið er til þess flutt að mæta þeim fyrirætlunum sem lýst var í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram 1. október síðastliðinn. Þar var gert ráð fyrir umtalsvert meiri tekjum af auðlinda- og umhverfissköttum en raunin er með frumvarpi þessu, eða 16 milljörðum alls, en í meðförum máls hefur þó sú tekjuöflun tekið nokkrum breytingum og er gert ráð fyrir því að hærra tryggingagjald verði lagt á en upphaflega var ráðgert og tekjur af auðlinda- og umhverfissköttum þar af leiðandi umtalsvert lægri eða innan við 6 milljarðar kr.

Nefndin styður framkomið frumvarp og gerir óverulegar tillögur um breytingar og þá efnisbreytingu fyrst og fremst að undirstrika það sem áður var um rætt að umhverfisskattarnir í málinu séu eins og auðlindagjaldið í raforkunni tímabundnir til þriggja ára. Þessi gjöld eru auðvitað annars vegar lögð á vegna þeirra sérstöku erfiðleika sem við erum í en þau eru líka lögð á og vísað til þess að það má vænta þess að almennt verði gjöld vegna losunar gróðurhúsalofttegunda tekin upp, trúlega að þremur árum liðnum almennt í Evrópu, og þá sé eðlilegt að þessi sérstöku gjöld falli niður og gjaldtaka taki mið af því umhverfi sem við þá erum í.