138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[14:35]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrirspurnina. Það er rétt að það kemur þarna fram tillaga um 50 kr. gjald að meðaltali á hvert kíló. Það hefur ekki náðst einfaldlega vegna tímaskorts að vinna þetta niður á einstakar tegundir. Þess vegna er þessi leið farin í tillögum mínum. Ég leyfi mér að benda á að verið er að leigja út kílóið af þorski á 230 kr. og því er nægt borð fyrir báru á þeim bænum. Í síauknum mæli er verið að veiða stærsta hluta uppsjávaraflans til manneldis, þannig að það fæst miklu meira verð fyrir hann núna en áður þegar þessu var öllu saman mokað í bræðslu og gefið kúm og svínum í Bretlandi. (TÞH: Og löxum í Noregi.) Já, og löxum í Noregi eins og hv. þingmaður bendir á. Þetta er kannski fyrsta skrefið í að vekja upp þessa umræðu og leggja til að þessi leið verði skoðuð.

Annað sem hv. þingmaður talaði um var að við værum nánast sammála í því að hér væri um hugtakamisnotkun að ræða. Við getum einfaldlega litið þannig á að virðisaukaskattur af bókum samkvæmt hugmyndafræðinni í þessu frumvarpi er hugsaður sem auðlindagjald á skóga og það sér hver maður að svona hugsun gengur ekki upp, þetta er bara vitleysa. Ég sem er hlynntur auðlindagjöldum vona innilega að stjórnarmeirihlutinn sjái að sér í þessu máli og eyðileggi ekki þá umgjörð sem á annars að vera um umhverfis- og auðlindaskatta með þessu frumvarpi, því að þarna er verið að setja fordæmi sem verður vísað í þar sem auðlindagjöld eru skilgreind sem skattar á almenning en ekki skattar á auðlindarentuna. Það er mjög slæmt að gefa slíkt fordæmi.