138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[15:41]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, þetta var einfaldlega reiknað út og þetta var metið svo að þessi fjárhæð dygði til að mæta þessum 0,12 kr. eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson orðaði það, 12 aurum mundi ég segja. Vanti þar eitthvað upp á held ég að ég geti svarað því játandi. Já, það er meiningin að þessi aðgerð verði alveg hlutlaus gagnvart kostnaðinum við að hita hús með rafmagni.

Það er alveg rétt að þessi mikli munur er tilfinnanlegur og hefur auðvitað heilmikil lífskjaraáhrif og æskilegt væri að geta haldið áfram aðgerðum til þess að vinna á honum, bæði með því að menn kæmust yfir í annars konar orkugjafa þar sem þess er kostur með því að halda áfram að leita að jarðhita á köldum svæðum og styrkja menn til þess að fara í hitaveitu þar sem það er gerlegt. Það hjálpar til og þegar frá líður verður það ódýrari kostur og enginn vafi á því. Þá fækkar þeim sem eftir sitja með raforkuhitunina og þá verður ódýrara að gera betur við þá í (Forseti hringir.) formi niðurgreiðslna.