138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:31]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson fór í sinni ræðu í gegnum tillögur sjálfstæðismanna varðandi séreignarsparnaðinn, auk þess sem hann talaði mikið um það sem hann kallaði „atlögu að Landspítalanum“. Ég hefði hins vegar áhuga á að ræða aðeins þessar tillögur sjálfstæðismanna út frá öðrum vinkli. Það sem ég hef einna helst heillast af við að skattleggja séreignarsparnaðinn er að ég tel að sú skattlagning muni ekki hafa áhrif á vísitölu neysluverðs, muni ekki hækka lán heimilanna.

Ég hef áhuga á að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að þessi tekjuöflun ríkissjóðs sem talað er um hér varðandi gjöld á áfengi og tóbak, bifreiðagjöld, bensín- og olíugjöld og hækkun á virðisaukanum — þetta á að skila um 9.700 milljónum, reiknast mér til, auk hækkunar á ýmsum gjöldum hjá ríkissjóði en Hagsmunasamtök heimilanna hafa reiknað út að á sama tíma muni þetta leiða til 13,4 milljarða kr. hækkunar á verðtryggðum húsnæðislánum heimilanna og allt að 40–50 milljörðum til viðbótar vegna hærri vaxtagreiðslna á lánstíma lánanna. Er hv. þingmaður ekki sammála því að eðlilegt hefði verið að efnahags- og skattanefnd fjallaði sérstaklega um þetta og leitaði leiða til þess að koma í veg fyrir þessa víxlverkun?