138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[21:33]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að hrósa 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar fyrir vel unnið nefndarálit. Ég hefði þó viljað sjá fleiri tillögur um hvernig hægt væri að auka jöfnuð og réttlæti í skattkerfinu en er að finna í þessu nefndaráliti, (Gripið fram í.) enda er af nógu að taka eftir 17 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins.

Eins og fram kemur í nefndarálitinu er skattbyrði hér á landi lægri en á hinum Norðurlöndunum og þess má jafnframt geta að samkvæmt rannsóknum Hagstofunnar og OECD jókst tekjuójöfnuður hér á landi meira frá árinu 2000 en nokkurs staðar annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Ástæðan fyrir því var fyrst og fremst sú að Sjálfstæðisflokkurinn lét persónuafsláttinn ekki hækka í samráði við verðbólguþróun.

Það sem ég vildi spyrja hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson út í er fullyrðing sem er á bls. 10 í nefndarálitinu en þar er talað um að gerðar séu alvarlegar athugasemdir við að frítekjumark á stóreignarskatti sé hærra fyrir ekkjur og ekkla en fyrir hjón. Ég spyr: Er ekki þessi hópur, ekkjur og ekklar, sérstakur skjólstæðingahópur Sjálfstæðisflokksins? Er þá þessi athugasemd við að ekkjur og ekklar hafi hærra frítekjumark varðandi stóreignarskattinn en hjón ekki dálítið einkennileg?