138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[00:19]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Í því frumvarpi sem hér er til umræðu má greina að nokkru þá efnahagsstefnu sem ríkisstjórnin hyggst nú fylgja og nota sem leiðarljós fyrir okkur Íslendinga á leið okkar út úr þessari kreppu. Til að spara mér tíma ætla ég að víkja beint að athugasemdunum við lagafrumvarpið. Það er í nokkru búið að fara yfir einstakar lagagreinar þannig að ég ætla mér ekki að fara í þær. Margt af því er reyndar mjög flókið og hv. stjórnarandstöðuþingmenn hafa bent á ýmislegt sem þar þarf að laga áður en þetta frumvarp verður að lögum ef fyrir því er þingmeirihluti.

Hér hefur verið rætt nokkuð um leið okkar sjálfstæðismanna um hvernig eigi með að fara séreignarsparnaðinn og þá möguleika sem við höfum þar til að leysa þann vanda sem er uppi varðandi ríkissjóð og þá stóru hættu sem við erum í samfara því að hækka skatta við núverandi aðstæður. Í athugasemdum við lagafrumvarpið, frú forseti, koma fram hugleiðingar ríkisstjórnarinnar um þá leið. Það er áhugavert að lesa þessar hugleiðingar og fara yfir þær vegna þess að þær gefa manni nokkra innsýn í það hvers vegna stjórnarliðar hafa haft þá afstöðu sem fram hefur komið í þessum sal.

Hér segir, með leyfi frú forseta, í athugasemdunum:

„Hugmyndir um skattlagningu eigna eða tekna lífeyrissjóðanna hafa komið fram.“

Síðan hleyp ég yfir nokkrar línur og gríp niður þar sem bent er á að sparnaður lífeyrissjóðanna er „að jafnaði ekki geymdur óvirkur heldur er honum ráðstafað til fjárfestinga hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Sé sparnaðurinn skertur dregst ráðstöfunarfé þessara aðila saman“. Allt er þetta rétt. „Efnahagsleg áhrif af þessu eru því hin sömu og af lántöku ríkisins hjá einkaaðilum.“

Nú kemur mjög áhugaverð setning, frú forseti:

„Helsti munurinn er sá að lántakan er ekki gerð á markaði þar sem lántakandi og lánveitandi komast að niðurstöðu um lánveitingu og lánsskilmála heldur er lánveitingin þvinguð fram með skyldu manna til að leggja fé í lífeyrissjóði og síðan upptöku hluta þess fjár í ríkissjóð.“

Nú kann að vera að einhver hefði þá skoðun, frú forseti, að þar sem um er að ræða skatteignir ríkissjóðsins sé býsna langt gengið að halda því fram að eini munurinn á því að ríkið kalli til sín þessa skatteign og því að taka lán sé sá að menn hafi ekki náð samkomulagi um vexti og afborgunarskilmála. (Gripið fram í.) Þetta er sagt í athugasemdum við þetta lagafrumvarp.

Ég verð að segja eins og er eftir að hafa lesið þetta að mig óar nú við ef þetta er grunnurinn að því hvernig menn nálgast umræðuna um þá leið sem við sjálfstæðismenn höfum lagt til. Ég verð að segja eins og er að ég hefði átt von á því að í meðförum nefndarinnar hefði verið komið inn á þessa hluti þannig að menn settu ekki inn í texta sem ætti að fara í bækur þingsins og víðar til leiðbeiningar um það hvað Alþingi var að hugsa svona texta um að eini munurinn á því ef við tökum það fé sem við sannarlega eigum í lífeyrissjóðunum og að taka lán sé sá að ekki sé búið að semja um vextina og afborganir. Hvers lags undarlegheit eru þetta, frú forseti? Ég hlakka til að heyra skýringar frá hv. þingmönnum stjórnarliðsins á þessari setningu.

Ég ætla að halda áfram með þessa umræðu í athugasemdunum, frú forseti. Ég gríp næst niður þar sem haldið er áfram að ræða um áhrifin af þeirri aðgerð sem við sjálfstæðismenn höfum lagt til. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Því hefur einnig verið haldið fram í þessu sambandi að með fjármögnun ríkisútgjalda með framangreindum hætti“ — þ.e. með því að ríkið kalli til sín þessa skattpeninga — „megi komast hjá meintum neikvæðum áhrifum skattheimtu á efnahags- og atvinnulíf, samdrætti í eftirspurn o.fl. Kenningar um slík áhrif skattheimtu eru að vísu á vafasömum grunni reistar eins og vikið verður að síðar. Burt séð frá því er það rétt að vænta mætti örvandi áhrifa á efnahagslíf af þeim aðgerðum sem um ræðir.“

Hér er það þó í það minnsta viðurkennt að ef við færum þessa leið sem við sjálfstæðismenn höfum lagt til mætti vænta þess að það yrðu örvandi áhrif á hagkerfið. Það er ágætt að það er þó a.m.k. búið að skjalfesta þann skilning. Síðan heldur hér áfram, með leyfi forseta:

„Eins og bent hefur verið á eru þær“ — það eru þær aðgerðir sem hér um ræðir, þ.e. að kalla til sín þessa skattpeninga — „í eðli sínu lántaka og eins og aðrar lántökur til að fjármagna útgjöld ríkissjóðs valda þær aukinni eftirspurn og auknum efnahagsumsvifum. Það er einnig rétt að við ríkjandi aðstæður er margt sem mælir með slíkri örvun hagkerfisins en þeim aðgerðum og þar með skuldasöfnun ríkissjóðs eru takmörk sett.“

Frú forseti. Hér er því haldið fram í athugasemdum við það frumvarp sem er til umræðu að við aukum skuldir ríkissjóðs, það sé aukin skuldasöfnun af hálfu ríkissjóðs, ef kallaðar eru inn þær skattgreiðslur sem á að fresta og eru geymdar í séreignarsparnaði. Þess má vænta að einhverjir af hv. þingmönnum stjórnarliðsins útskýri fyrir okkur sem erum bara mannleg, held ég, hvernig það gerist að það að kalla til sín eign orsaki meiri skuldasöfnun. Ég sé að hér sitja í salnum tveir hv. þingmenn Samfylkingarinnar. Ég vona að annar hvor þessara þingmanna sjái sér fært að koma hingað á eftir og útskýra fyrir mér, þannig að maður gangi nú ekki með þessa vitleysu hérna áfram, hvernig það eykur skuldir ríkissjóðs ef hann kallar til sín þær eignir sem hann á nú þegar í séreignarsjóðunum. Hér er það sagt og fullyrt í athugasemdum við það frumvarp sem við höfum verið að ræða. Það væri áhugavert að fá einhvers konar skýringu á þessu.

Síðan heldur áfram, og fyrir áhugamenn um hagfræði er áhugaverður „passus“ sem fylgir næst á eftir, með leyfi forseta:

„Ríkisútgjöld sem fjármögnuð eru með sköttum hafa, þvert ofan í það sem oft er haldið fram, örvandi áhrif á hagkerfið, einkum þegar það einkennist af skorti á eftirspurn þótt þau áhrif séu minni en þegar um lántökur er að ræða. Sá misskilningur virðist algengur að skattheimta samfara útgjaldaaukningu dragi úr eftirspurn í hagkerfinu og leiði til samdráttar. Í reynd er því öfugt farið.“

Frú forseti. Fyrir utan þann yfirlætislega tón sem í þessu er hnýtur maður um þetta og verður að staðnæmast við. Hér stendur enn og aftur, frú forseti:

„Sá misskilningur virðist algengur að skattheimta samfara útgjaldaaukningu dragi úr eftirspurn í hagkerfinu og leiði til samdráttar.“

Undanfarna daga höfum við rætt í þinginu um að við þurfum að skera útgjöld niður. Í þessum merkilega texta er vitnað til þess misskilnings sem virðist vera uppi, að samfara aukinni skattheimtu og útgjaldaaukningu megi ekki gera ráð fyrir samdrætti í eftirspurn. Vandinn er bara sá að við erum að tala um samdrátt í útgjöldum, ekki útgjaldaaukningu. Það má vel vera ef menn geta stillt upp stöðu sem er þannig að verið sé að auka á útgjöld ríkisins umtalsvert og hækka skatta líka á sama tíma að út úr slíku gætu menn fengið aukningu í eftirspurn, en þannig er málum ekki háttað. Svo virðist sem sá eða sú sem skrifaði þennan texta fyrir hæstv. fjármálaráðherra og fyrir hönd þeirra sem flytja þetta mál í þinginu hafi ekki alveg áttað sig á því hvaða aðferð er uppi í íslensku hagkerfi. Það er alveg furðulegt að lesa þennan texta.

Síðan heldur hér áfram, frú forseti, með leyfi yðar:

„Í stað þeirrar einkaneyslu sem dregst saman við skattlagninguna kemur eftirspurn frá ríkinu þegar fénu er ráðstafað. Þar sem skattlagningin mun að hluta til draga úr sparnaði hinna skattlögðu er líklegt að til skamms tíma verði þensla vegna útgjalda hins opinbera meiri en samdráttur einkaneyslunnar. Þessi áhrif eru byggð á fræðilegum kenningum …“

Ég ætla ekkert að draga í efa að hér að baki liggi heilmikil og merkileg fræði, en það sem vantar í skilninginn á þessu er að það er bara ekki verið að gera það sem hér er talað um. Það er ekki verið að auka útgjöld ríkisins, það er nefnilega verið að draga þau saman. Og nú fer ég að skilja ýmislegt í þeirri umræðu sem hér hefur verið hjá sumum hv. þingmönnum, án þess að ég ætli að nefna nein nöfn sérstaklega, sem virðast stundum þegar verið er að ræða þann vanda sem við stöndum frammi fyrir einhvern veginn tala eins og það eigi að fara að auka ríkisútgjöld, að menn geti átt von á því að hagkerfið örvist vegna þess að við séum að auka ríkisútgjöld, eins og rætt er í þessum merkilega texta. Vandinn er einmitt sá, frú forseti, að það liggur fyrir að það verður samdráttur í hagkerfinu vegna þess að það varð hrun á fjármálamarkaði. Það liggur fyrir að það verður samdráttur í ríkisútgjöldum þvert á þær vangaveltur sem hér eru í textanum sem mun valda enn þá meiri samdrætti í hagkerfinu. Það liggur fyrir að útgjöld heimilanna hafa vaxið vegna kostnaðar við fjármögnun á íbúðarhúsnæði, bæði vegna erlendra lána og þeirra lána sem eru vísitölutryggð, sem gerir það að verkum að heimilin hafa minna á milli handanna til að eyða í vöru og þjónustu. Og svo á að hækka skatta, alla mögulega skatta. Það á að hækka virðisaukaskatt, það á að hækka tekjuskatt og það á að koma með nýja skatta. Þegar þetta er lagt saman blasir auðvitað við að þetta mun valda auknum samdrætti í hagkerfinu.

Það er alveg furðulegt að það skuli taka svona langan tíma að koma þessum einföldu skilaboðum í gegn, en auðvitað enn á ný, frú forseti, þegar maður les athugasemdirnar með frumvarpinu og hvaða hugmyndir, hugmyndafræði og fræðilegu kenningar liggja þar að baki sér maður það erfiða verkefni sem bíður okkar hér í stjórnarandstöðunni.

Ég ætla ekki að hafa meiri umfjöllun um þessa athugasemdir við lagafrumvarpið, þetta er eiginlega of galið, frú forseti.

Af því að hér er talað um hinar fræðilegu kenningar sem að baki þessu búa ætla ég þó að nefna enn og aftur, sem ég gerði fyrir tveimur dögum úr þessum ræðustól, rannsóknir sem Gregory Mankiw gerði að umtalsefni og birti í blaðinu New York Times, ég held að það hafi verið 12. desember, vegna þess að í því sem ég vitnaði til áðan er talað um að það sé algengur misskilningur að skattheimta samfara útgjaldaaukningu dragi úr eftirspurn. Starfsfélagar Mankiws við Harvard-háskólann, hagfræðingarnir Alberto Alesina og Silvia Ardagna, unnu stóra og mikla samanburðarrannsókn á því hvernig 21 land innan OECD brást við því hvaða aðferðir menn notuðu til að reyna að koma hagkerfum aftur af stað. 91 tilvik var skoðað frá 21 landi. Til að allt sé nefnt, frú forseti, náði rannsóknin aftur til ársins 1970. Hver var niðurstaðan? Jú, í þeim tilvikum þar sem skattar voru lækkaðir mátti gera ráð fyrir því að það skilaði sér í aukinni þjóðarframleiðslu í framhaldinu, með öðrum orðum náðu menn árangri þannig. Í þeim tilvikum þar sem ekki tókst að hressa upp á hagkerfið, þar sem ekki tókst að koma því aftur af stað — hvaða aðferðum skyldi hafa verið beitt þar, frú forseti? Jú, akkúrat þeim að auka ríkisútgjöld. Þetta er áhugavert fyrir okkur Íslendinga, enn og aftur. Þarna eru sem sagt bornar saman þessar tvær leiðir. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að þeir ágætu hagfræðingar sem ég taldi upp áðan við Harvard-háskólann, ásamt þeim ágæta manni Mankiw, hafi unnið rannsókn sína mjög fræðilega. Ég held að Harvard-háskóli sé einn af þeim háskólum í heiminum sem geri hvað ströngustu kröfurnar til þeirra fræðimanna sem þar starfa.

Núna höldum við því fram á fræðilegum grunni eins og kemur fram í athugasemdum við lagafrumvarpið að það sé algengur misskilningur að aukin skattheimta samfara útgjaldaaukningu dragi úr eftirspurn. Enn og aftur, við erum reyndar að fara að draga úr ríkisútgjöldum, en reynsla annarra þjóða er bara önnur. Enn á ný, þar sem á að fara að draga úr ríkisútgjöldunum og hækka skatta halda margir hv. þingmenn að þar með sé möguleiki á því að við munum auka þjóðarframleiðsluna, við munum vinna okkur út úr kreppunni. Auðvitað verður það ekki. Auðvitað gengur það ekki upp. Það sem auðvitað verður að gera er að það verður að bjarga ríkissjóði. Menn geta ekki farið í gegnum þetta án þess að bjarga ríkissjóðnum.

Ef okkur Íslendingum stæðu engar leiðir til boða eftir þetta hrun aðrar en þær að hækka skatta, þrátt fyrir samdráttinn í kjölfar hrunsins og samdráttinn í kjölfar samdráttar í ríkisútgjöldum, mundi ég hugleiða það. En þegar bent hefur verið á, frú forseti, skýrt, útreiknað og útfært, hvernig hægt er að afla ríkinu tekna með öðrum hætti, með því í fyrsta lagi að ríkisstjórnin standi við það samkomulag sem hún gerði við aðila vinnumarkaðarins um framkvæmdir og framkvæmdastig í landinu, m.a. um Helguvík og Straumsvík, og framkvæmdir í þeim víkum báðum og að farin væri sú leið að nýta það skattfé sem við eigum sparað í séreignarsjóðunum mundi ég segja, ef við hefðum ekki neina slíka möguleika, já, að sennilega yrðum við að bíta í það súra epli við þessar aðstæður að hækka skatta. (BÁ: Það væri eitrað epli.) Það væri eitrað epli, kallar hv. þm. Birgir Ármannsson, og kannski yrði það niðurstaðan en við yrðum sennilega að taka áhættuna. (PHB: Skipti…) En við eigum annan möguleika.

Þegar sá möguleiki er afgreiddur eins og gert er í þessum athugasemdum við lagafrumvarpið, eins og ég lýsti áðan, þar sem menn sáu engan mun á því að taka til sín þessar skatttekjur og því að taka lán nema það sem fælist bara í því að það væri ekki búið að semja um lánskjörin og afborgunarskilmálana hlýtur maður enn og aftur að velta fyrir sér hvort við höfum rætt þetta mál nægilega vel í þinginu og í þeim nefndum sem um málið hafa átt að fjalla.

Hér hefur þess að nokkru verið getið eða sumir hv. þingmenn hafa haldið því fram í ræðustólnum að samt sem áður sé um það að ræða að við séum að taka úr framtíðinni tekjur sem við megum ekki missa, að ef við tökum núna þessa peninga út úr séreignarsjóðunum gerum við það að verkum að við getum ekki staðið undir velferð í landinu þegar fram líða stundir. Það er auðvitað alrangt. Það lýsir alveg herfilegum misskilningi á þeirri stöðu sem uppi er. Lífeyrissjóðskerfið sjálft er alveg gríðarlega stórt. Ætli það sé samanlagt ekki um 1.600–1.700 milljarðar. Það er reyndar erfitt að meta það nákvæmlega núna vegna þess að það er erfitt að slá mati á eignir við þessar aðstæður. En þegar menn horfa á lífeyrissjóðskerfið íslenska og bera það saman við lífeyrissjóðskerfi annarra landa kemur í ljós að við skörum fram úr öðrum OECD-ríkjum og getum einna helst keppt við Svisslendinga í þessum efnum. Aðrar þjóðir standa okkur langt að baki í þeim málum og munar þar mjög gjarnan tugum prósenta. (Gripið fram í.) Síðan erum við með svokallaðan séreignarsparnað fyrir utan lífeyrissjóðskerfið okkar. Það er sparnaður sem við komum á, ekki fyrir svo mjög löngu, til viðbótar við lífeyrissjóðskerfið. Þegar við settum lífeyrissjóðskerfið upp og ákváðum að fresta skattgreiðslum þar inni var það einmitt út af því að við vildum tryggja að skattar fylgdu þessum greiðslum í framtíðinni. Svo bætum við hinu við og þess vegna köllum við það séreignarsparnað, hann er að nokkru fyrir utan lífeyrissjóðskerfið.

Það sem við sjálfstæðismenn erum að segja er að við þær alvarlegu aðstæður sem nú eru eiga menn að skoða það í alvörunni að taka þá fjármuni sem við eigum frestaða í lífeyrissjóðunum þar sem um er að ræða séreignarsjóði og skerða í engu lífeyrissjóðskerfið sjálft og getu okkar til að hjálpa þeim sem hjálpar þurfa á næstu áratugum þó að hér breytist aldurssamsetning þjóðarinnar. Möguleikar okkar Íslendinga til að gera það eru margfalt meiri en flestra annarra þjóða sem við berum okkur saman við.

Frú forseti. Ef við förum skattahækkanaleið þá sem Samfylkingin og Vinstri græn leggja til í þinginu erum við að taka áhættuna af því að það fari eins á Íslandi og fór í Bandaríkjunum í kjölfar kreppunnar miklu árið 1929. Það varð mikið hrun og kreppa í kjölfarið en kreppan í Bandaríkjunum í kjölfar hrunsins 1929 varð ekki kreppan mikla nema fyrir þær orsakir að bandarísk stjórnvöld, bæði seðlabankinn og ríkisstjórnin, gripu til rangra aðgerða og gerðu kreppu að kreppunni miklu. Hættan er sú að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin grípur til núna, skattahækkanir ofan í þann samdrátt sem orðið hefur í íslenska hagkerfinu vegna hrunsins og vegna þess að það þarf að draga saman ríkisútgjöldin, skattahækkanir ofan í útgjaldaauka heimilanna, muni draga saman umsvif í hagkerfinu. Og það er það sem er svo alvarlegt.

Enn og aftur, frú forseti, það er önnur leið og við eigum að fara þá leið sem við sjálfstæðismenn leggjum til. Það er sú leið sem er (Forseti hringir.) líklegust til að stýra okkur út úr kreppunni. Það er auðvitað það sem er verkefni okkar hér inni.