138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[00:46]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hér er ekki talað af neinum léttleika. Hér er um að ræða mjög alvarleg mál, dauðans alvöru. Það sem við sjálfstæðismenn höfum verið að benda á er það að við stöndum frammi fyrir tveimur valkostum: Annars vegar að hækka skatta við aðstæður sem leyfa engan veginn skattahækkun og allar rannsóknir í hagfræði benda til að muni valda auknum samdrætti ofan á þann mikla samdrátt sem orðið hefur og hins vegar að leggja á það mat, þegar við horfum á þetta mikla og stóra lífeyrissjóðakerfi okkar, hvort ekki geti verið skynsamlegt að mæta þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir núna með því að taka hluta og einungis hluta af þeim skattgreiðslum sem við eigum inni í öllu kerfinu, þann hluta sem liggur í séreignarsparnaðinum, sem er viðbótarsparnaður ofan á hið almenna stóra lífeyrissjóðakerfi.

Þetta eru auðvitað bara skynsemisrök og búhyggindi. Að neita sér um að ræða þetta er svipað og einhver sem situr í köldu húsi og neitar að nota eitthvað af þeim kolum sem til eru vegna þess að það á að verða svo heitt í ellinni. Þannig er þetta auðvitað ekki. Enginn er að tala um að ganga svo á þá skattpeninga sem við eigum í lífeyrissjóðakerfinu að við getum ekki staðið undir velferð hér í framtíðinni.

Ég leyfi mér að fullyrða, frú forseti, að íslenska hagkerfinu og möguleikum okkar til að búa þjóðinni góð kjör í framtíðinni stendur meiri ógn af þessari skattahækkunarleið því það kann vel að vera, frú forseti, að það fari fyrir okkur eins og Bandaríkjamönnum að kreppan dýpki og dýpki árum saman. Árin 1937 og 1938 stóðu menn frammi fyrir enn erfiðari vandamálum en 1930, meira atvinnuleysi en 1930 o.s.frv. (Gripið fram í: En New Deal?) Ja, það skyldi nú aldrei vera þegar menn skoða hvernig það virkaði. Það voru þó aukin ríkisútgjöld. Við erum ekki að ræða það, það er sami misskilningur og í þessum undarlegu athugasemdum við frumvarpið.

Aðalatriðið er þetta: Við höfum þennan möguleika núna og (Gripið fram í.) eigum að nýta hann, við eigum að horfa á þetta mál þannig (Forseti hringir.) að við höfum það hugfast að sú hætta sem Ísland er í er það mikil að við höfum ekki efni á að sleppa því að hugsa um þessa hluti með þeim hætti sem við höfum lýst hér.