138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[00:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Nú fer að líða að lokum 2. umr. um þetta frumvarp, sem er trúlega með verri frumvörpum sem komið hefur frá þessari ríkisstjórn og eru þau þó mörg slæm. Nú hefur þetta mál því miður ekki fengið næga umfjöllun hér í þinginu og því miður er ekki útlit fyrir að því ljúki með þeim hætti að ítarleg og nauðsynleg umræða hafi farið fram um alla þá fjölmörgu þætti sem hér er tekið á. Ég hef ekki tíma, hæstv. forseti, til að bæta mikið úr því en verð þó að geta þess að mörg gögn hafa komið fram í málinu, sem þingmenn hafa aðgang að, og ef að líkum lætur hafa þeir nú u.þ.b. 30 klukkustundir eða svo til að kynna sér þau. Ég skora á hv. þingmenn að kynna sér umsagnir hagsmunaaðila, umsagnir endurskoðendaskrifstofa og annarra sem fjalla með ítarlegum, rökstuddum og vönduðum hætti um einstaka þætti í frumvarpinu.

Auðvitað er ljóst að þetta frumvarp er allt of seint fram komið. Í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram 1. október voru áform um gríðarlega miklar skattahækkanir en fátt sagt um útfærslu í því sambandi. Satt að segja biðum við hér á þinginu í allt haust eftir að sjá einhverjar hugmyndir um útfærslu. Við biðum allan októbermánuð og megnið af nóvembermánuði. Í síðustu viku nóvember hélt ríkisstjórnin blaðamannafund til að kynna útlínur og 26. nóvember var þetta frumvarp lagt fram. Þetta frumvarp var tekið til umræðu og afgreitt til nefndar 5. desember. Ástæðan fyrir því að nokkrir dagar liðu þarna á milli var sú að ríkisstjórnin þrjóskaðist við að ræða Icesave-málið og vildi ekki taka þetta mál á dagskrá. Stjórnarandstaðan bauð ítrekað og sagði sér að sársaukalausu að gera hlé á Icesave-umræðunni þannig að þetta mál kæmist fyrr á dagskrá en því tilboði eða þeirri hugmynd var vísað á bug af fulltrúum ríkisstjórnarinnar hvað eftir annað.

Þess vegna kom þetta fyrst til nefndar 5. desember og af einhverjum ástæðum voru umsagnarbeiðnir ekki sendar út fyrr en 7. desember og umsagnaraðilar, hagsmunaaðilar, höfðu nákvæmlega tíma til 9. desember til að skila svörum sínum. Ég verð að lýsa mikilli aðdáun á þeim umsagnaraðilum sem brugðust við vegna þess að þeir hafa sent inn ekki tugi heldur sennilega hundruð blaðsíðna í athugasemdum við þetta frumvarp, enda af nógu að taka. Frumvarpið kemur víða við og er líklegt til að valda skaða víða þannig að auðvitað var mikils um vert að fá rökstuddar niðurstöður, rökstutt mat frá hagsmunaaðilum á einstökum þáttum þess og mikil synd að við höfum því miður ekki haft tíma til að fara nákvæmlega yfir þá þætti í þessari umræðu. Ýmsir hv. þingmenn hafa vikið að einstökum þáttum og rætt þá sem er mjög jákvætt en alls ekki tæmandi og fjölmörg önnur atriði í þessu frumvarpi geta valdið skaða.

Áður en ég segi skilið við málsmeðferðina þá verð ég að geta þess að þær breytingar sem eru boðaðar í skattafrumvörpum ríkisstjórnarinnar sem við erum að afgreiða hér í þinginu á örfáum sólarhringum eru róttækustu breytingar á skattkerfinu á Íslandi í meira en 20 ár. Róttæk skref voru stigin í lok níunda áratugarins, sérstaklega á árunum 1987 og 1988. Þá voru gerðar verulegar breytingar bæði á tekjuskattskerfinu og eins á kerfi óbeinna skatta með upptöku virðisaukaskatts, en frá þeim tíma hafa ekki verið gerðar jafnróttækar breytingar á skattkerfinu á jafnstuttum tíma. Þær breytingar sem við sjálfstæðismenn beittum okkur fyrir í samstarfi við aðra flokka hér á árum áður, á valdatíma okkar sem vissulega var langur, dreifðust yfir langan tíma og voru vandlega undirbúnar. Þær voru vandlega undirbúnar, tóku langan tíma og voru yfirleitt kynntar með þeim hætti að þeir aðilar sem hagsmuna áttu að gæta eða komu að þessum málum með einhverjum hætti höfðu góðan tíma til undirbúnings.

Nú kemur þetta hér inn mánuði fyrir áramót, róttækustu breytingar á skattkerfinu sem lagðar hafa verið til í 20 ár, og Alþingi á að afgreiða þær á örfáum sólarhringum, örfáum klukkutímum jafnvel ef við tökum þann tíma sem er til þessarar umræðu. Staðreyndin er auðvitað sú að hugmyndir ríkisstjórnarflokkanna, sem fara í þessu frumvarpi meira og minna óbreyttar í gegn ef að líkum lætur, lágu ekki fyrir fyrr en mjög seint. Af fréttum að dæma var enn verið að taka ákvarðanir innan stjórnarflokkanna og innan ríkisstjórnarinnar um mjög veigamikla þætti í þessu sambandi í kringum 20. nóvember, jafnvel síðar. Allt er þetta því mjög sérstakt að verið sé að gera þetta með þessum hætti.

Nú kann einhver að segja að ríkisstjórnin hafi staðið frammi fyrir miklum vanda og þurft að bregðast við. En var það vandi sem kom upp í september á þessu ári eða október á þessu ári eða nóvember á þessu ári? Var ríkisstjórnin að bregðast við einhverjum óvæntum atburðum á þeim tíma? Nei. Ríkisstjórnin telur sig vera að bregðast við atburðum sem urðu í október í fyrra, október 2008. Verkefnið sem þessi ríkisstjórn hefur í sambandi við ríkisfjármálin, hvort sem okkur líkar betur eða verr, hefur blasað við allt þetta ár. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2009 gerðu allir sér grein fyrir því að fjárlagagerðin, bæði á tekju- og útgjaldahlið, yrði alveg gríðarlega erfið fyrir árið 2010. Núverandi ríkisstjórnarflokkar komu í ríkisstjórn 1. febrúar. Þeir hafa haft allan tímann frá 1. febrúar til að móta einhverjar hugmyndir þannig að erfiðar aðstæður í efnahagslífinu og erfiðar aðstæður í ríkisfjármálunum eru engin afsökun fyrir því að koma með svona tillögur örfáum vikum fyrir áramót og gefa þinginu örfáa daga til að fjalla um þær, engin afsökun, ekki nokkur afsökun.

Ríkisstjórnin átti auðvitað að gefa þinginu tækifæri til að fjalla um þessi mál með eðlilegum hætti miðað við það hversu viðamiklar breytingar eru á ferðinni. Venjulega, ef við bara horfum á síðustu ár og tökum út árið í fyrra þar sem menn vissulega lentu í óvæntu áfalli eftir að fjárlagafrumvarpið var komið fram, menn upplifðu hrun í október 2008 og urðu þess vegna að snúa öllu á hvolf í sambandi við fjárlagagerð, skattamál og annað. En ef við tökum það ár út og lítum á það hvenær mikilvæg skattafrumvörp — sem þó eru miklu minni að vöxtum en þau sem við erum hér með til umfjöllunar — hafa komið inn í þingið hefur það að jafnaði verið í lok október, byrjun nóvember, þannig að nefndir þingsins hafa að jafnaði haft svona u.þ.b. mánuð til þess að fara yfir róttækar skattabreytingar og jafnvel minni háttar skattabreytingar.

Nú hafa nefndir þingsins viku til að gera þetta og við erum hér aðfaranótt sunnudags að ræða þessi mál, nauðbeygð til þess í ljósi þess hve málið kemur seint fram frá ríkisstjórn. Þetta er gagnrýnisvert og ástæða til að nefna það hér enn og aftur vegna þess að, eins og hv. þm. Pétur Blöndal og fleiri hafa nefnt í þessari umræðu, þá valda þessi vinnubrögð töluverðri hættu á því að hér verði gerð mistök. Ekki mistök sem snúast um pólitíska ákvarðanatöku, ekki mistök sem snúast um fjárhæð skatta eða þess háttar heldur tæknileg mistök sem geta leitt til óskaplegra vandræða í framkvæmd. Við þekkjum það frá tímum bæði þessarar ríkisstjórnar og þeirra sem áður hafa setið að breytingar sem eru gerðar við svona aðstæður geta leitt til klúðurs, við erum að taka stórkostlega hættu á því. Við erum að setja þá aðila sem eiga að framkvæma þessar reglur í stórkostleg vandræði, bæði skattkerfið og eins þá sem þurfa að telja fram eða vinna með öðrum hætti við þessi mál, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða fyrirtæki. Það eru allir í stórkostlegum vandræðum þegar svona róttækar skattabreytingar koma á síðustu stundu. Heilmikil vandkvæði, heilmikill kostnaður, heilmikið tjón verður bara af þeim sökum.

Hæstv. forseti. Ég ætla að víkja frá þessu og að skattahækkunum sem slíkum eins og þær eru lagðar fram í þessu frumvarpi og þeim frumvörpum sem við höfum hér áður fjallað um. Ég ætla að rifja upp að fyrr í dag samþykktum við sem lög frumvarp um svokallaða auðlinda- og umhverfisskatta. Það er gert ráð fyrir að þeir muni skila 4,7 milljörðum kr. í tekjur fyrir ríkissjóð. Það eru tekjur sem koma frá fyrirtækjunum og heimilunum í landinu. Mikið af þessu er reyndar bara skattlagning á almenning í landinu svo að við höldum því til haga, mjög mikið. Það eru ekki stórfyrirtæki sem borga meiri hlutann af þessu. Þetta eru einstaklingar og lítil fyrirtæki, stórfyrirtækin eru innan við helmingur ef ég les þetta frumvarp rétt.

Nú undir kvöld eða seinni partinn fjölluðum við um óbeinu skattana og ýmsa fleiri skatta sem voru hengdir aftan við frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þar voru lagðar fram tillögur sem eiga miðað við frumvarpið sjálft að skila 14,7 milljörðum í ríkissjóð, 14,7 milljörðum sem eru teknir frá fyrirtækjunum og einstaklingunum í landinu, í þessu tilviki reyndar aðallega frá einstaklingunum í landinu. Það er gert með hækkunum á heimilin almennt, bíleigendur og kaupendur áfengis og tóbaks. Ég hygg að kaupendur áfengis geti verið svona u.þ.b. 80% fullorðinna Íslendinga, kaupendur á tóbaki 20%. Þetta felur í sér hækkun álagna á skuldara í landinu og raunar alla aðra því að almenn hækkun á virðisaukaskatti kemur auðvitað við alla, öll erum við kaupendur þjónustu eða vörutegunda sem bera 24,5% virðisaukaskatt í dag en munu bera 25,5% eftir að þetta frumvarp verður að lögum. Þarna er um að ræða skattahækkun upp á 14,7 milljarða í viðbót.

Við skulum líka rifja það upp að í sumar, í júní, vorum við hér í þinginu að fjalla um aðrar skattahækkanir frá ríkisstjórninni. Þá lágu fyrir afar fjölbreyttar og margþættar skattahækkanir sem áttu að skila um 20 milljörðum kr. ef ég man rétt. Það voru líka skattahækkanir sem lögðust á heimilin og fyrirtækin í landinu, fluttu peninga frá heimilunum og fyrirtækjunum í landinu og lögðust á almenning og atvinnulífið af fullum þunga. Það er reyndar síðan önnur saga að sennilega verða tekjurnar í raun mun minni, af því að það er tilfinningin í þessum efnum að ofreikna kannski vonarpeninginn í þessum skattahækkunum, en sleppum því í bili. Við skulum bara miða við þær tölur sem koma fram í frumvörpunum sjálfum.

Nú í kvöld eða undir nótt erum við að ræða skattahækkanir sem fela í sér tekjuöflun fyrir ríkið sem nemur tuttugu og eitthvað milljörðum, hygg ég, þegar allt er talið. Það er reyndar erfitt að átta sig á því af gögnum málsins hvað ríkissjóður reiknar með að ná inn miklum tekjum af þessu. Þarna er reiknað með sennilega tólf milljörðum í tryggingagjaldshækkun og trúlega einhverju álíka í hækkun á aðra skatta, tekjuskatta, fjármagnstekjuskatt og eignarskatt sem kallaður er auðlegðargjald í þessu frumvarpi. Þarna eru kannski tuttugu og eitthvað milljarðar í viðbót þó að það sé erfitt að átta sig nákvæmlega á þeirri tölu. Þetta eru skattahækkanir sem eins og hinar fyrri leggjast á heimilin, fjölskyldurnar og fyrirtækin í landinu.

Það sem mér finnst vanta töluvert upp á er það að við reynum að átta okkur á því hvaða áhrif allar þessar skattabreytingar hafa á hag heimilanna og fyrirtækjanna í heild. Ef við gerum ráð fyrir því að skattahækkunin í sumar hafi falið í sér auknar álögur upp á 20 milljarða erum við kannski að bæta svona 44 milljörðum við núna, 44 milljörðum sem flytjast frá fyrirtækjunum og heimilunum í landinu. Þetta gerir það að verkum að fyrirtækin og heimilin í landinu hafa sem nemur þessum milljörðum, kannski 64–65 milljörðum, minna úr að spila á næsta ári en þau höfðu á fyrri hluta þessa árs eða gerðu ráð fyrir að hafa á þessu ári áður en ríkisstjórnin fór í skattahækkunarleiðangur sinn í júní.

Þá skulum við skoða við hvaða aðstæður þessar skattahækkanir koma inn í efnahagslífið. Eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson fór vel yfir hér áðan eru aðstæðurnar þær að það er kreppa og samdráttur. Fyrirtækin hafa minni tekjur og heimilin, einstaklingarnir hafa minni tekjur. Kakan sem er til skiptanna er að minnka. Hún hefur þegar minnkað mikið og er enn að minnka. Kakan er að minnka en ríkið ætlar að taka stærri sneið af henni, það er það sem um er að ræða.

Ég sé í frumvarpinu og heyrði það í ræðu fjármálaráðherra hæstv. þegar hann flutti mál sitt hér við 1. umr. að hann var í einhverjum samanburði varðandi hlutfall skattbyrði af landsframleiðslu og miðaði við árin 2006 og 2007 þegar allt var á blússandi siglingu í atvinnulífinu, það skiptir ekki máli hvort forsendurnar voru góðar eða ótraustar allt var á blússandi ferð. Fjármagnstekjur skiluðu ríkissjóði meiru en nokkru sinni áður, laun voru hærri en nokkru sinni áður, fjöldi hálaunamanna með miklar tekjur var meiri en nokkru sinni áður. En nú hefur þetta allt saman dregist saman. Hálaunamennirnir eru miklu færri og þeir sem teljast hálaunamenn í dag eru hreinir kettlingar miðað við þá feitu ketti sem voru hér á ferðinni fyrir tveimur, þremur árum í launum talið.

Skattstofninn hefur með öðrum orðum dregist alveg rosalega mikið saman. En ríkissjóður ætlar samt að stækka sína sneið af kökunni, nákvæmlega, en ekki að stækka kökuna. Ég velti því fyrir mér, ef við bara horfum sögulega á þessa hluti: Hugsum ekki um prósenturnar, en hvenær hafa skatttekjur ríkissjóðs verið mestar? Hvenær fær ríkissjóður mest í sinn hlut af sköttum einstaklinga og fyrirtækja, (Gripið fram í.) beinum og óbeinum? Það er þegar mest er um að vera í efnahagslífinu, þegar fyrirtækjunum gengur vel, þegar fyrirtækin skila arði, þegar einstaklingar fá góð laun, þegar sem flestir eru í vinnu, þegar allt er á góðri siglingu í efnahagslífinu. Það er þá sem ríkissjóður fær mest í sinn hlut.

Þegar allt er í niðursveiflu gera hærri skattar ekkert annað en að auka hana. Hér hafa ýmsir góðir fræðimenn verið nefndir til sögunnar sem hafa sýnt fram á það í rannsóknum að svo sé. Það þarf ekki rannsóknir heldur bara nokkuð einfalda skynsemi til að sjá að þegar allt er í niðursveiflu í efnahagslífinu, fyrirtækin eiga í skuldavanda, rekstrarvanda vegna minnkandi tekna og heimilin eiga í rekstrarvanda vegna skuldagreiðslna, hærri og þyngri greiðslubyrði og minnkandi tekna, hvaða áhrif það hefur þegar ríkið bætir á vanda heimilanna og fyrirtækjanna með stóraukinni skattheimtu. Það auðvitað setur heimilin og fyrirtækin í meiri vanda og vinnur gegn því að ná okkur upp úr þeirri kreppu sem við erum í og gerir það að verkum að kreppan dýpkar og framlengist, því miður. Þess vegna eru þær hugmyndir sem ríkisstjórnin hefur lagt fram í þessu frumvarpi stórskaðlegar miðað við þær aðstæður sem við búum við í dag.