138. löggjafarþing — 56. fundur,  21. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[09:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér er verið að fjalla um afnám sjómannaafsláttar og þó að ég sé í sjálfu sér sammála því finnst mér vera farið illa fram í þessu eins og með afnám vísitölubindingar þar sem um er að ræða kjarasamninga sem menn hafa gert. Það vantar allt samráð. Það kom fram á fundum hv. efnahags- og skattanefndar að það vantar allt samráð við þá aðila sem lögin snerta og það er afskaplega slæmt inn á hvaða brautir ríkisstjórnin er komin. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að fara nú að taka upp samráð, ekki að auka það heldur að taka upp samráð yfirleitt við þá aðila sem öll þessi lagasetning varðar. Því miður er þetta að verða að lögum núna með miklu hraði án þess að nokkur viti hvað er að gerast.

Ég minni sérstaklega á hækkunina á virðisaukaskattinum sem var tekin ákvörðun um á þrem mínútum og enginn var til umsagnar og enginn gestur kom á fund nefndarinnar. Ég segi nei. (Gripið fram í: Hvaða vitleysa, það var …)