138. löggjafarþing — 58. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[21:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að fagna ummælum hv. þm. Þuríðar Backman í andsvari hér rétt á undan þar sem hv. þingmaður sagði að fylgjast þyrfti sérstaklega vel með þessum tveimur heilbrigðisstofnunum, annars vegar á Sauðárkróki og hins vegar Blönduósi, sem eru sannarlega að fá meiri niðurskurð en allar aðrar heilbrigðisstofnanir á landinu. Ég fagna því sérstaklega og ég verð að segja það, virðulegi forseti, að mér fannst annað að hlusta á málflutning hv. þingmanns en hæstv. heilbrigðisráðherra sem vill ekki viðurkenna að þarna sé ekki allt með felldu. Það er svokallað reiknilíkan sem gefur út þær forsendur sem þarna eiga að vera og forstöðumenn stofnananna fá ekki að gera athugasemdir við reiknilíkanið eða skoða það. Því þarf að breyta en hæstv. heilbrigðisráðherra hefur ekki léð máls á því hingað til.

Það er líka mjög dapurlegt í ljósi þess að á sama tíma og verið er að skera þessar tvær heilbrigðisstofnanir niður við trog er hæstv. heilbrigðisráðherra að bæta 8,4% við aðalskrifstofu ráðuneytisins. Á sama tíma og verið er að færa fullt af verkefnum frá ráðuneytinu er hæstv. heilbrigðisráðherra að bæta við, sem segir okkur að það er skýr stefna hæstv. ríkisstjórnar að skerða þjónustu við sjúklinga úti á landsbyggðinni og bæta við skrifstofustörfum í Reykjavík, svo því sé algjörlega haldið til haga.

Virðulegi forseti. Ég held að núverandi ríkisstjórnar verði fyrst og fremst minnst og arfleifð hennar verði fyrst og fremst Icesave-klúðrið, sem var algjört, og eins hvernig hæstv. ríkisstjórn kemur fram gagnvart elli- og örorkulífeyrisþegum. Búið var að skerða elli- og örorkulífeyrisþega um 6,2 milljarða á þessu ári fyrir árið 2010 og síðan í meðferð fjárlagafrumvarpsins milli 2. og 3. umr. gat hæstv. ríkisstjórnin ekki setið á sér og varð að skera niður til viðbótar 35 milljónir í vasapeninga elli- og örorkulífeyrisþega. Ríkisstjórnin gat ekki látið staðar numið. Þetta verða klárlega eftirmæli hennar, það er þetta sem hún afrekaði, að skera mest niður þarna og svo Icesave-klúðrið.

Virðulegi forseti. Við erum búin að ræða lengi fjárlagafrumvarpið og erum að stíga síðustu skrefin í þeirri umræðu. En það sem klárlega þarf að gera er ekki flókið að mínu mati, það þarf að fara að bæta við tekjurnar og draga úr útgjöldum hjá ríkissjóði. Við sjálfstæðismenn höfum lagt fram tillögur um að skattleggja séreignarsparnaðinn og þær tillögur okkar, sem við höfum lagt fram sem ábyrg stjórnarandstaða, eru mjög ítarlegar og mundu skila ríkissjóði með 30 milljarða kr. minni halla en hæstv. ríkisstjórn er að gera. Þetta er það sem við erum að gera, virðulegi forseti.

Það sem við þurfum að gera til viðbótar er að fara að framleiða og skapa gjaldeyri, við þurfum að auka veiðiheimildir til þess að fá gjaldeyri. Heimilin í landinu þola ekki þessa skattpíningu til viðbótar miðað við það sem hæstv. ríkisstjórn er að gera, það er algjörlega útilokað, og ríkisstjórnin mun þá sennilega ná að beygja heimilin og fjölskyldurnar í landinu endanlega.

Síðan þurfa menn að fara ræða um þá hluti sem skipta máli í svona tölum. Ég hef reyndar lagt til og sagt að við verðum að fara að breyta lífsmunstri þjóðarinnar. Á næsta ári er gert ráð fyrir að 30 milljarðar fari í atvinnuleysisbætur. Nú verða menn að breyta vinnubrögðunum við þetta og því var mjög dapurlegt þegar hæstv. félagsmálaráðherra flutti frumvarp um atvinnuleysisbætur að hann dró mjög úr refsiákvæðum gagnvart þeim sem svíkja út þessar bætur. Nú verður fólk að fara í þá vinnu sem því býðst vegna þess að það er ekki hægt að borga 30 milljarða í atvinnuleysistryggingabætur og flytja inn á sama tíma fleiri hundruð manns af erlendu bergi brotnu til að vinna þau störf sem til falla. Þessu verður að breyta, öðruvísi náum við ekki tökum á þjóðfélaginu, svo mikið er víst í mínum huga.

Virðulegi forseti. Ég á einungis stuttan tíma eftir af ræðutíma mínum og ég vil nota tækifærið hér í lokin til að þakka öllum hv. þingmönnum sem ég hef starfað með í fjárlaganefnd fyrir gott samstarf. Eins vil ég þakka starfsfólki nefndasviðs fyrir vel unnin störf og þá sérstaklega starfsmönnum fjárlaganefndar sem hafa unnið að mínu viti algjört þrekvirki við þau skilyrði sem þeim eru búin. Vinnuskilyrði þessa ágæta fólks eru með algjörum ólíkindum, fólk er látið vaka sólarhringum saman til að klára það sem gera þarf til að við getum farið að ræða fjárlögin. Þessu þarf að breyta fyrir næstu fjárlagafrumvarpsgerð. Ég ítreka enn og aftur þakkir til þeirra sem að þessu standa fyrir þeirra mikilvæga starf í þessari vinnu.