138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[10:19]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér erum við enn á ný að fjalla um hjúkrunarrýmin. Þessi tillaga gengur út á það að halda eftir nokkrum hjúkrunarrýmum hjá heilbrigðisráðuneytinu, þ.e. 30% af rýmunum sem eru í landinu. Tillagan gengur út á að nokkur hjúkrunarheimili sem eru svokölluð hrein hjúkrunarheimili, þ.e. bara hjúkrunarrými þar, ekki líka dvalarrými, verða eftir og svo samningarnir bæði á Akureyri og Höfn í Hornafirði. Það sem er athyglisvert er að ákveðið er að taka ekki önnur hjúkrunarheimili sem eru hrein hjúkrunarheimili. Miðað við listann eru a.m.k. níu hjúkrunarheimili sem fara ekki áfram undir hatt heilbrigðisráðuneytisins, heldur flytjast yfir til félagsmálaráðuneytisins. Það er engin samfella í ákvörðunum meiri hlutans. Það eru bara valin nokkur hjúkrunarheimili sem eru ekki flutt yfir en önnur eru flutt yfir sem eru nákvæmlega eins þannig að það er eiginlega engin (Forseti hringir.) heil brú í þessum tillögum. Ég styð það að þessi heimili verði áfram í heilbrigðisráðuneytinu en harma það að meiri hlutinn hefur flutt 70% rýmanna yfir til félagsmálaráðuneytisins (Forseti hringir.) þar sem þau eiga ekki heima.