138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[10:49]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Fjallað er um að stofna hlutafélag um byggingu nýs Landspítala og leggja félaginu til nauðsynleg lóðarréttindi ríkisins við Hringbraut undir bygginguna. Ég bendi hv. þingmönnum á að sveitarfélög hafa lent í miklum vanda vegna nákvæmlega svona skuldbindingar, og ríkið líka. Við erum núna með tónlistarhúsið í fanginu sem var nákvæmlega sama fyrirkomulag um að fara í einkaframkvæmd og að ríki og borg tækju síðan bygginguna á leigu. Þarna erum við að tala um raunverulega skuldbindingu til margra ára. Mín skoðun er sú að ríkið á núna að leggja áherslu á, í ljósi þess hversu miklar erlendar skuldir eru, á að skapa gjaldeyristekjur, hvetja lífeyrissjóðinn til að fjárfesta þar sem verða gjaldeyristekjur. Ég hef efasemdir um fjárfestinguna sjálfa, ég hef efasemdir um staðsetninguna, ég hef efasemdir um tilgang hennar og ég hef efasemdir um áhrif skuldbindingar á fjárhag ríkisins og þjóðarbúsins í heild. Því segi ég nei.