138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:48]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr):

Virðulegur forseti. Ég flyt framhaldsnefndarálit um Icesave eina ferðina enn. Þetta mál er með ólíkindum og mér finnst dapurlegt að þurfa að standa í þessum ræðustól einu sinni enn og flytja minnihlutaálit fjárlaganefndar, eitt af þremur minnihlutaálitum, í þessu tilfelli álit 1. minni hluta.

Í þessu framhaldsnefndaráliti segir m.a.:

Fram er lagt enn einu sinni álit minni hluta fjárlaganefndar um ríkisábyrgð á Icesave-skuldbindingunum en mál þetta er orðið eitthvert hið glórulausasta mál íslenskra stjórnmála fyrr og síðar. Upphaf þessa þingfundar staðfestir það að þessi þingfundur er klúður frá upphafi vegna þess að forseti Alþingis brást í því að ná sáttum um framvindu málsins í þingsal. Vitleysan heldur endalaust áfram á hinu háa Alþingi. Það er svolítið dapurlegt að verða vitni að því, en þannig er það bara.

Fyrsti minni hluti átelur í upphafi harðlega málsmeðferð fjárlaganefndar og málsmeðferð Alþingis sjálfs í þessu máli. Í fjárlaganefnd hefur meiri hlutinn hafnað því að ræða ýmis brýn álitamál varðandi greiðslugetu þjóðarbúsins, efnahagslegar forsendur Icesave-samkomulagsins og óvissuþætti sem upp gætu komið. Meiri hlutinn hafnaði því einnig að lagt væri mat á nýjustu tölur sem sýna að erlendar skuldir ríkissjóðs eru mjög líklega orðnar óviðráðanlegar.

Ekki er núna um að ræða sömu vinnubrögð hjá fjárlaganefnd og formanni fjárlaganefndar og voru fyrr á árinu þegar náðist nærri því algjörlega þverpólitísk sátt um að koma inn með fyrirvara við það Icesave-samkomulag sem þá var í gildi. Voru vinnubrögð formanns fjárlaganefndar, hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, og fleiri nefndarmanna til fyrirmyndar sem og vinnubrögð forseta þingsins um sveigjanleika í tímasetningum og þeirri lagasetningu.

Það sem hefur síðan gerst er að framkvæmdarvaldið hefur vaðið yfir þingið á skítugum skónum og komið inn með þetta mál að nýju. Hv. formaður fjárlaganefndar, Guðbjartur Hannesson, og hæstv. forseti þingsins hafa farið með þetta mál með þvílíkum ólíkindum að ömurlegt hefur verið að fylgjast með því. Svona á ekki að vinna að lagasetningu og svona á ekki að vinna að einhverri mikilvægustu lagasetningu þingsins fyrr og síðar.

Það er ljóst, virðulegur forseti, að skuldsetning þjóðarbúsins erlendis er komin langt umfram það sem gerist hjá mjög skuldugum þjóðum heims og miklar líkur eru á að þjóðarbúið komist í greiðsluþrot haldi ekki þær forsendur sem stjórnvöld gefa sér um endurheimtuhlutfall á eignum Landsbankans, hagvöxt á Íslandi, gengi krónunnar, mannfjöldaþróun og verðlag í Bretlandi og á evrusvæðinu. Í líklegri sviðsmynd frá IFS Greiningu sem ekki fékk efnislega umfjöllun í fjárlaganefnd eru taldar umtalsverðar líkur á að Íslendingar muni vera að borga Icesave-skuldbindinguna til ársins 2044, þ.e. í 35 ár. Önnur niðurstaða IFS Greiningar er að miðað við mjög varfærnislegt mat séu 10% líkur á því að ríkissjóður komist í greiðsluþrot. Mikilvægt er að fram komi að skýrsla IFS Greiningar hefur ekki verið rædd í fjárlaganefnd og málið var tekið út úr nefndinni gegn atkvæðum minni hlutans áður en þessi atriði fengust rædd.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur nú unnið að mati á skuldaþoli þjóðarbúsins fyrir næstu fimm árin í meira en heilt ár og hefur það mat tekið breytingum eftir því hvernig vindurinn blæs hverju sinni og skuldaþolið hækkað eftir því sem uppvíst hefur orðið um hærri og hærri skuldir. Skuldaþolsútreikningar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem eru til næstu fimm ára ná ekki heldur fram til þess tíma þegar byrja þarf að greiða af Icesave-láninu. Fram kom að fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi taldi í sumar að skuldahlutfall á bilinu 240–260% væri enn viðráðanlegt. Þess má hins vegar geta að í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því í nóvember 2008, fyrir rétt einu ári, stendur á bls. 55 í íslenskri þýðingu:

„Erlendar skuldir eru gríðarlega viðkvæmar fyrir áföllum — sérstaklega gengi. Frekari lækkun á gengi um 30% mundi valda áframhaldandi lóðréttri hækkun á skuldahlutfallinu (í 240% af VLF árið 2009) og klárlega vera óviðráðanlegt.“

Ástæður þess að skuldaþolið er enn viðráðanlegt að mati fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru m.a. meiri afgangur af vöruskiptajöfnuði en gert hafði verið ráð fyrir, en eins og fram kemur síðar er sá vænti afgangur að því er virðist skáldskapur einn. Eins hefur komið fram á fundum með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að skuldir þjóðarbúsins eru ekki viðráðanlegar næstu fimm árin en því fylgir sú ótrúlega fullyrðing að eftir það verði að líkindum nægur hagvöxtur til að standa undir skuldbindingunum.

Greiðslur af Icesave-lánunum eru í erlendri mynt (evrum og pundum) og þarf að afla þess gjaldeyris með afgangi af útflutningstekjum. Tölur Seðlabankans sýna hins vegar að halli á vöru- og þjónustujöfnuði hefur verið neikvæður í 12 af síðustu 19 árum. Afgangur hefur mest verið 22 milljarðar kr. árið 1994 og fyrir þau sjö ár á tímabilinu 1990–2008 þegar ekki var halli á viðskiptunum var afgangurinn samanlagt um 76 milljarðar kr. Samanlagður halli á vöru- og þjónustujöfnuði frá árinu 2000 er hins vegar 632 milljarðar kr., þ.e. 70 milljarðar kr. halli að meðaltali á hverju ári. Umsögn Seðlabankans frá í sumar gerir hins vegar ráð fyrir 163 milljarða kr. afgangi af viðskiptum við útlönd á hverju ári að meðaltali næstu 10 árin. Nýjustu spár Seðlabankans gera einnig ráð fyrir að útflutningstekjur verði um helmingur vergrar landsframleiðslu, hlutfall sem er algerlega óraunhæft, og sögulega hefur þetta hlutfall hæst náð um 33% af vergri landsframleiðslu þegar best var. Þess má geta að við afgreiðslu málsins í sumar sem leið taldi Seðlabankinn óraunhæft að þetta sögulega hlutfall breyttist.

Í ljósi þróunar á viðskiptum við útlönd undanfarna áratugi og þeirrar staðreyndar að Ísland er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og getur því ekki hindrað flæði vöru og þjónustu virðist spá Seðlabankans einfaldlega algerlega óraunhæf, svo óraunhæf að hún virðist jaðra við skáldskap. Rétt er að fram kom bæði í máli Seðlabankans og máli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að sá gríðarlegi afgangur af vöruskiptajöfnuði sem spáð er er fenginn með því að reikna út nauðsynlegan afgang með tilliti til þeirra skuldbindinga sem fyrir liggja. Það er byrjað á öfugum enda á jöfnunni og hún látin ganga upp, ekki miðað við einhverjar raunhæfar forsendur, heldur miðað við það sem þarf til að þjóðin komist ekki í greiðsluþrot. Slík nálgun er náttúrlega röng og lýsir algerri uppgjöf fyrir staðreyndum málsins, og óskhyggjan um að þetta reddist einhvern tímann í framtíðinni er látin ráða. Hér er hins vegar um algert ábyrgðarleysi að ræða og það að Alþingi skuli taka afstöðu til mála með þessum hætti er einfaldlega forkastanlegt.

Skoða þarf skuldastöðu þjóða með hliðsjón af aðstæðum í hverju landi. Spurningin er ekki hvort ríkið geti staðið undir skuldbindingum sínum, heldur hvort þjóðin geti það. Ríkið getur staðið í skilum með því einfaldlega að taka þessa fjárhæð af þjóðinni í formi hærri skatta og skertrar þjónustu. Málið snýst um efnahag Íslands meðan á greiðslum stendur en hugsanlegt er að farið verði svo djúpt í skattlagningu að upp úr því verði seint komist. Með nýlega afgreiddu frumvarpi til fjárlaga er þetta skref stigið og almenningur sem við aðstæður dagsins er ekki aflögufær skal látinn borga en þær atvinnugreinar sem mest bera úr býtum, einmitt vegna efnahagsástandsins, þ.e. útflutningsgreinarnar sem fá auðlindirnar ókeypis, eru áfram stikkfrí.

Fyrirtæki eru hins vegar hreyfanleg og mörg þeirra munu flýja land ef ríkið gengur of langt í skattheimtu og skerðingu lífskjara til að standa í skilum með erlend lán þjóðarbúsins. Afar lítið af mannauði landsins er bundinn við landið og þá ekki nema sá hluti sem starfar við landbúnað, stóriðju og hluta af fiskveiðunum.

Þetta ber að hafa í huga, frú forseti, þegar sú staðreynd liggur fyrir að vaxtakostnaður ríkissjóðs af Icesave-skuldbindingunni eingöngu er um 100 millj. kr. á dag hvern einasta dag ársins, hátt í 40 milljarðar kr. á ári, og að allur innheimtur tekjuskattur yfir 70.000 einstaklinga fer í það eingöngu að greiða vexti af Icesave-skuldinni ef hún verður samþykkt óbreytt.

Samkvæmt nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að um 104 milljarðar kr. fari í vaxtakostnað eingöngu sem eru um 23% af öllum tekjum ríkissjóðs. Þá er ekki talinn með vaxtakostnaður af Icesave-skuldbindingunum en að honum viðbættum nemur vaxtakostnaður ríkissjóðs um 32% af öllum tekjum ársins. Þess ber að geta að í útreikningum fjármálaráðuneytisins á skatttekjum næsta árs er ekki gert ráð fyrir brottflutningi fólks þrátt fyrir umtalsvert auknar álögur en frekari brottflutningur fólks er einmitt mjög líklegur. Ef af verður segir slíkur brottflutningur mjög til sín bæði í minni hagvexti og minni tekjum fyrir ríkissjóð. Það er augljóst mál að hér er um að ræða stöðu sem ekki gengur upp. Ríkissjóður er einfaldlega kominn upp að vegg og ríkisstjórnin verður að grípa til annarra ráða en að takast á hendur frekari skuldir vegna hrunsins. Það er einfaldlega komið að leiðarlokum í þeim efnum og því fyrr sem hæstv. fjármálaráðherra viðurkennir það því betra.

Varðandi lánshæfismat ríkissjóðs hafa sumir haldið því fram, og þá sérstaklega hæstv. fjármálaráðherra, að staðfesting Alþingis á fyrirliggjandi Icesave-samningum muni bæta lánshæfismatið. Alþingi hefur setið undir stöðugum hótunum hæstv. fjármálaráðherra um að þingmenn stefni Íslandi í svokallaðan ruslflokk hvað skuldir varðar með frekari töfum á málinu. Þessar staðhæfingar hæstv. fjármálaráðherra eru mjög langsóttar og virðast frekar rangar en réttar þar sem samþykkt ríkisábyrgðarinnar fylgir gríðarleg óvissa um það hvernig ríkissjóður ætlar að standa undir skuldbindingunum. Áður ríkti óvissa um hversu mikið íslenska ríkið þyrfti að taka á sig og lánshæfismatsfyrirtækin gátu ekki leyft sér að gera ráð fyrir að ríkið tæki á sig alla skuldbindinguna. Með því að samþykkja þessa skuldbindingu aukast skuldir Íslands hins vegar umtalsvert og skuldaþolið verður líklega óviðráðanlegt. Slík staða getur einfaldlega ekki haft jákvæð áhrif á lánshæfismatið og nægir í því sambandi að benda á að reiknað er með að ársvextir af Icesave-lánunum verði nálægt 40 milljörðum kr. eins og áður hefur komið fram. Því er líklegra að sú skuldastaða sem upp kemur eftir samþykkt þessa frumvarps leiði til enn verra lánshæfismats en hitt.

Hvað varðar mat á eignum þrotabús Landsbanka Íslands hf. hefur enginn, þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir, fengið að sjá hverjar þessar eignir eru fyrir utan skilanefnd bankans. Gert er ráð fyrir að 75% og jafnvel 90% eignanna í eignasafninu gangi upp í skuldina vegna Icesave-reikninganna. Við venjubundin gjaldþrot teljast 20% endurheimtur á eignum góðar en 30% endurheimtur mjög góðar.

Í skýrslu finnska fjármálaeftirlitsins frá árinu 2003 kom fram að eignir finnsku bankanna hefðu verið ofmetnar og skuldirnar vanmetnar í a.m.k. ár eftir að bankarnir lentu í erfiðleikum við upphaf fjármálakreppunnar á 10. áratug síðustu aldar. Miðað við þá reynslu má telja líklegt að eignir Landsbankans séu enn ofmetnar og skuldir vanmetnar og þá bendir 1. minni hluti á að ekki hefur enn fengist gefið upp hversu stór hluti af eignum Landsbankans sé veðsettur. 1. minni hluti bendir á að ofmat á eignum bankans muni þýða að minna endurheimtist af þeim á næstu árum þannig að höfuðstóll Icesave-lána verði hærri eftir sjö ár en gert er ráð fyrir. Þess má geta að íslenskir ráðamenn hafa haldið því á lofti að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi á sínum tíma lagt blessun sína yfir matið á eignum Landsbankans en af hálfu fulltrúa sjóðsins á Íslandi hefur þvert á móti verið staðfest að það hafi aldrei verið gert. Þetta er að mörgu leyti líkt málflutningi stjórnarliða í þessu máli, ýmsum skáldskap hefur linnulítið verið haldið fram frá upphafi þess.

Fram hefur komið að svokallaður Ragnars H. Halls-fyrirvari í lögunum frá síðasta sumri sé orðinn gagnslaus með þessu frumvarpi en geti þó hugsanlega virkað ef EFTA-dómstóllinn verður svo örlátur að gefa Hæstarétti Íslands samþykki sitt fyrir því að Hæstiréttur megi fara eftir íslenskum lögum. Einnig hefur komið fram að ríkisábyrgðin er óbundin í tíma og umfangi og því hugsanlega ólögleg. Meiri hluti fjárlaganefndar hefur kosið að fá „ráðgefandi“ álit á þessum atriðum, m.a. frá þeim sem komu beint að samningagerðinni eða voru til ráðgjafar um hana, margir hverjir á fullum launum og háum launum. Niðurstaðan er því óljós og enn er álitamál hvort samningarnir stangist á við stjórnarskrána. Hér eru stjórnvöld komin í einhvers konar loftfimleika með sjálfa stjórnarskrána og ætla að láta sér svo stóralvarlegt mál í léttu rúmi liggja.

Fjárlaganefnd hefur m.a. fengið álit bresku lögmannsstofanna Ashurst og Mishcon de Reya til að meta samningana fyrir hönd Íslands. Þess ber að geta að Ashurst kom beint að samningagerðinni fyrir hönd Íslands og því ólíklegt annað en að álit þeirra yrði vilhallt ríkisstjórninni. Álit Mishcon de Reya var gagnrýnið á samningana og kemur fram, eins og áður frá þeim, að þeir telja að hægt hefði verið að gera betur.

Afstaða meiri hluta fjárlaganefndar til nánast allra efasemda um málið hefur hins vegar verið á þá leið að ekki væri um neinar nýjar upplýsingar að ræða og í mörgum tilvikum var reynt að gera lítið úr því fólki sem hafði uppi álit sem ekki voru samrýmanleg áliti meiri hlutans. Var dapurlegt að verða vitni að því hvernig sumir stjórnarliðar í fjárlaganefnd töluðu um þá sem komu fyrir nefndina og voru ekki sammála þeim. (VigH: Rétt.) Efnisleg umfjöllun í nefndinni var nánast engin og þá eingöngu til málamynda og greinilegt að nú skyldi málið keyrt í gegn, sama hvað hver segði. Þetta skilur eftir sig þá bitru en líklegu staðreynd að meiri hlutinn hafi ákveðið niðurstöðuna fyrir fram og fundir nefndarinnar því e.t.v. ekki annað en leiktjöld í leikriti sem samið er af hæstv. forsætis- og fjármálaráðherrum með þegar kunnan endi.

Minnihlutastjórnin sem tók við í febrúar sl. fór á bak við Framsóknarflokkinn sem varði ríkisstjórnina falli með því að upplýsa ekki um samningaviðræður um Icesave-málið sem þó hafði gagngert verið lofað. Sama ríkisstjórn gekk til kosninga í apríl án þess að upplýsa almenning um stöðu málsins í aðdraganda kosninganna, þ.e. að þá þegar voru í gangi viðræður um að íslenskur almenningur þyrfti að greiða Icesave-skuldbindingarnar. Þessu var haldið leyndu fyrir kosningar og þá virðist einfaldlega ljóst, frú forseti, að íslensk stjórnvöld hafa verið tilbúin til að ganga fram af óheilindum á öllum stigum þessa máls. Ótrúleg framganga framkvæmdarvaldsins hefur verið til skammar en enn skammarlegri er þó þjónkun meiri hluta þingmanna og forseta þingsins við framkvæmdarvaldið með þeirri aðgerð að taka málið aftur upp eftir að Alþingi hafði samþykkt lög um Icesave í lok sumars. Kynning framkvæmdarvaldsins á þeirri lagasetningu fyrir breskum og hollenskum stjórnvöldum var algert klúður og var greinilegt að embættismennirnir sem inntu þá kynningu af hendi vissu ekki um hvað málið snerist. Mæting þeirra fyrir efnahags- og skattanefnd og fjárlaganefnd leiddi það greinilega í ljós. Ekki er vitað hvort um afglöp þeirra sjálfra er að ræða eða hvort um má kenna ónógum undirbúningi af hálfu fjármálaráðuneytisins. Niðurstaðan er hins vegar sú að hæstv. forsætis- og fjármálaráðherrar hafa að kröfu Breta og Hollendinga ákveðið að láta Alþingi lúta í duftið sem löggjafarvald á Íslandi. Í huga 1. minni hluta er hér um að ræða aðför að þingræðinu og þegar höfð er í huga mörg önnur lagasetning á Alþingi á haustdögum og vinnubrögðin sem hafa verið viðhöfð virðist sem þingræðið sé e.t.v. eingöngu til í orði en ekki á borði. Slík framganga sem hér um ræðir gerist þó ekki nema með vitund og vilja þingsins sjálfs og er dapurlegt til þess að hugsa að hæstv. forseti Alþingis og hugsanlega meiri hluti þingmanna sé því samþykkur að Alþingi sé e.t.v. bara einhvers konar leikrit.

Fyrsti minni hluti ítrekar að hann telur afgreiðslu meiri hlutans gagnrýnisverða og telur það lýsa fádæma þjónkun við framkvæmdarvaldið að þingnefnd skuli afgreiða frumvarp sem felur í sér svo veigamiklar breytingar á lögum sem Alþingi sjálft er nýlega búið að samþykkja nánast umyrðalaust. Aðkoma fjárlaganefndar að málinu ber einkenni sýndarmennsku í stað vandaðrar úttektar á þeim efnisatriðum málsins sem nefndin átti að fjalla um. Fjárlaganefnd fjallaði ekki heldur efnislega um álit efnahags- og skattanefndar sem hún hafði þó óskað eftir. 1. minni hluti telur einfaldlega hneykslanlegt að ekki skuli hafa verið vandað betur til verka við þetta mál á öllum stigum þess og t.d. skoðað að fá ítarlega úttekt á framlögðum gögnum frá Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu og 1. minni hluti telur það ábyrgðarlaust af hálfu meiri hlutans að afgreiða málið með þessum hætti.

Þessu frumvarpi fylgir mikil óvissa um greiðslugetu ríkissjóðs sem og um greiðslugetu þjóðarbúsins í heild og það er einfaldlega mjög varasamt, frú forseti, að rýmka þá fyrirvara sem Alþingi samþykkti við ríkisábyrgðina í sumar, hvað þá að slá þá að mestu leyti af eins og frumvarp þetta gerir.

Í ljósi alls þessa, að með samþykkt Icesave-samninganna verður skuldabyrði þjóðarbúsins líklega komin yfir mörk þess að vera viðráðanleg og að lítið eða ekkert megi út af bregða til að þjóðin lendi í greiðsluþroti telur 1. minni hluti sig ekki geta mælt með því að Alþingi samþykki nýja útgáfu af ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna. Það eru einfaldlega of miklar líkur á að þjóðin geti ekki staðið undir skuldum á næstu árum til að slíkt samþykki sé forsvaranlegt.

Undir þetta skrifa ég á öðrum degi jóla 2009.

Frú forseti. Þetta var úr framhaldsnefndaráliti fulltrúa Hreyfingarinnar í fjárlaganefnd um Icesave-frumvarpið. Þetta frumvarp og meðferð þess á þinginu er birtingarmynd alls þess versta sem að er hér á landi. Þetta er dæmi um það hvernig stjórnmál og völd geta farið með fólk. Það hefur verið ömurlegt að verða vitni að því hvernig Alþingi hefur hagað sér í þessu máli og hvernig málið hefur verið unnið. Alþingi er rígbundið af framkvæmdarvaldinu og þingræðið er í rauninni óvirkt. Þeir sem bera ábyrgð á þessu öllu saman sem annaðhvort embættismenn eða fjárglæframenn eru hins vegar, eins og glöggt hefur komið fram á undanförnum vikum og mánuðum, einfaldlega bara boðnir velkomnir aftur að kjötkötlunum af stjórnmálaflokkunum. Við sjáum dag eftir dag fréttir í fjölmiðlum um að fólkið sem bar ábyrgð en stóð ekki undir henni og varð til þess að allt „geimið“ hrundi hér með stórum hvelli er komið aftur í sínar gömlu stöður, það er verið að skipa það sem formenn stjórna í bönkum, það er boðið velkomið með iðnver sín á Keflavíkurflugvelli. Ég er einfaldlega, frú forseti, nánast orðlaus yfir því að á Alþingi skuli vera fólk sem styður slíkar aðferðir. Það er alveg ótrúlegt að verða vitni að því hvernig Alþingi hefur algjörlega orðið að viljalausu og gagnslausu verkfæri í höndum einhverra sem oftar en ekki ná einfaldlega á bak við tjöldin fram því sem þeir ætla sér að ná fram.

Frú forseti. Það hefur eingöngu verið skipt um nöfn á þeim sem stjórna, en ekki á stjórnendunum sjálfum. Hér heldur allt áfram eins og árið 2008 hafi einfaldlega aldrei verið. Alþingi er á vegferð sem er röng og þetta er vegferð sem mun með þessu áframhaldi og samþykkt þessa frumvarps og áframhaldandi stjórnarsetu þeirra sem að því standa verða landi og þjóð mjög dýrkeypt.