138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:16]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég var ekki á þeim einstaka fundi fjárlaganefndar þar sem þetta tiltekna mál var tekið fyrir. Ég sá aftur á móti álit bæði fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar og fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins. Það er alveg rétt að mjög margt nýtt kemur fram í þessum álitum, m.a. má mjög auðveldlega færa rök fyrir því að málflutningur ríkisstjórnarinnar í þessu máli sé einfaldlega byggður á misskilningi og sé alrangur.

Hins vegar hefur verið farið með þetta álit eins og margar aðrar nýjar upplýsingar sem komið hafa fram í málinu, þær hafa verið afgreiddar með yfirlýsingu af hálfu formanns fjárlaganefndar með því að þetta sé ekkert nýtt, ekkert nýtt hafi komið fram í málinu. Þetta er sennilega 6. nefndarálitið sem ég mæli hér fyrir um þetta mál frá upphafi. Engin tvö þeirra eru eins, einmitt vegna þess að ný gögn hafa komið fram um málið í hvert einasta skipti sem það hefur verið til meðferðar. Við getum ekki staðið í vegi fyrir yfirlýsingum hv. (Forseti hringir.) formanns um að ekkert nýtt komi fram.