138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:25]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni andsvarið. Það er nefnilega rétt að ekki hefur komið mjög mikið fram hvernig á að fara að því að greiða þetta. Það hefur ekki verið lögð fram nein greiðsluáætlun um það hvernig á að fara að því að greiða þetta. Við erum með fabúleringar frá Seðlabanka Íslands um 163 milljarða kr. afgang af vöruskiptajöfnuði að meðaltali næstu 10 árin, sem á sér enga stoð í neinum efnahagslegum raunveruleika. Eitt af því sem fram hefur komið er að á næsta ári mun allur innheimtur tekjuskattur yfir 70.000 einstaklinga á Íslandi fara eingöngu í að greiða vexti af Icesave-skuldbindingunum. Íslendingar munu festast í því skuldafeni sem hefur náð taki á flestum skuldugustu og vanþróuðustu þjóðum heims, þ.e. að fólk rétt ræður við að greiða vextina með herkjum í nokkur ár eða jafnvel áratugi og selur í örvæntingu allar eignir og auðlindir þjóðarinnar til að ná í það að reyna að greiða niður höfuðstólinn en nær því aldrei og festist einfaldlega í skuldafeni. Þetta er geiri sem ég þekki tiltölulega vel (Forseti hringir.) og ég tel einfaldlega, því miður, talsverða hættu á að þetta gerist á Íslandi.