138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er lítið orðið eftir af jólaskapinu eftir að hafa hlýtt á grýlusögur hv. þingmanns. Um sífellt sífur um málsmeðferð í þessu máli er það að segja að það hefur núna í rúmlega hálft ár verið til ítarlegrar umfjöllunar í umræðum í þinginu, í tvígang komið þar, haldið um það heilt sumarþing og nú er þing kallað sérstaklega saman milli jóla og nýárs, og kallað eftir sérfræðiálitum og skýrslum í bak og fyrir og lítið mark á því takandi. Hitt er rétt hjá hv. þingmanni að bankahrunið hér er sennilega eitt hið stærsta í veraldarsögunni og skuldir þjóðarbúsins eru sannarlega verulegar. En eftir ræðu hv. þingmanns hlýtur maður að neyðast til að spyrja: Hvað heldur hv. þingmaður að muni gerast þegar hann ýtir á „nei“ á atkvæðahnappinum í þinginu? Heldur hv. þingmaður að þær skuldbindingar sem við erum að fjalla um hér muni bara hverfa? Hver er valkostur hv. þingmanns? Í hvaða efnahagslegu áhættu (Forseti hringir.) og tvísýnu vill hann stefna (Forseti hringir.) íslenskri þjóð?