138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:31]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Líklega hefur enginn þingmaður reynt það betur á eigin skinni að hægara er um að tala en í að komast í Icesave-málinu og sá þingmaður sem síðast talaði, sá sem hæst lét þegar þeir atburðir gengu yfir sem hann vill svo mjög vísa til þegar hann skýrir afstöðu sína í málinu í dag. Hann hefur algjörlega skipt um skoðun miðað við það hvernig hann talaði þá. Kannski er honum viss vorkunn að hann hafi ekki talað af meiri þekkingu en raun ber vitni.

Brussel-viðmiðin snerust ekki um það að við Íslendingar ætluðum að ábyrgjast alla innstæðuna. Þau snerust um það að við ætluðum að innleiða tilskipunina með sama hætti á Íslandi og annars staðar. Þegar við vorum á þessum tíma að hefja viðræður við Breta og Hollendinga, um það að taka lán til þess að forfjármagna væntanlegar kröfur þeirra, hafði ekki verið endanlega gengið frá neinum skilmálum og það var alveg ábyggilega ekki hugmyndin að gera Hæstarétt Íslands geldan í samskiptum þjóðanna ef upp kæmi ágreiningur eða að taka ákvæðið sem kennt er við Ragnar H. Hall og gera það að engu, (Forseti hringir.) að samþykkja það að við gætum gert kröfur vegna hryðjuverkalaga og svo fjölmargt annað. (Forseti hringir.) Nei, það er þessi ríkisstjórn sem ber ábyrgð á Icesave-samningunum, ekki hin fyrri.