138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil minna hv. þingmann á það, út af lánshæfismatinu, að sum matsfyrirtækin gáfu bönkunum mjög háa einkunn sem var langt uppi í skýjum alveg fram á síðasta dag. Ég vara hv. þingmann því við að taka of mikið mark á því. Það er líka hægt að spyrja: Hver vill lána þjóð sem getur ekki staðið við þær skuldbindingar sem hún er búin að taka á sig? Það er hinn vinkillinn á því máli.

Um leið og búið var að kynna fyrstu samningana — áður en fyrirvarar voru settir, í byrjun júnímánaðar, án þess að nokkur þingmaður hefði haft tækifæri til að kynna sér þá vegna þess að ekki var aðgangur að þeim skjölum sem við áttu — komu forustumenn Samfylkingarinnar, hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra, fram og sögðu að þingflokkur Samfylkingarinnar gerði enga athugasemd við þetta og teldi mjög skynsamlegt að samþykkja samningana eins og þeir væru. Getur hv. þingmaður staðfest að forustumenn Samfylkingarinnar hafi þar talað fyrir munn allra þeirra hv. þingmanna sem sitja í þingflokki Samfylkingarinnar?