138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:44]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði aldrei að ég væri að drepast úr gleði yfir þeirri stöðu sem við erum í. Við erum í afar slæmri stöðu. Það er búið að fara virkilega illa með okkur Íslendinga og við stöndum frammi fyrir ótrúlegum erfiðleikum.

Það sem máli skiptir er að horfa fram veginn, leysa málið og koma okkur upp úr vandanum. Við þurfum að leysa Icesave-deiluna til þess að koma okkur af stað. Við erum að gera það núna með ásættanlegum hætti. Það eru allir valkostir slæmir en þetta er samt það besta sem við getum gert í stöðunni.

Það er líka þannig, virðulegi forseti, að við Íslendingar erum ein um að halda því fram að okkur beri ekki skylda til að standa við þessar skuldbindingar, við erum ein um þá skoðun. (Gripið fram í.)