138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[10:10]
Horfa

Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að það hryggir mig pínulítið að heyra málflutning hv. þm. Þórs Saaris í þessu máli. Allt frá því að við fórum að ræða málið hef ég lagt mig fram um það í allsherjarnefnd að reyna að ná þverpólitískri samstöðu milli allra um það og það hefur tekist býsna vel. Hv. þm. Þór Saari hefur hins vegar ítrekað komið í ræðustól Alþingis og reynt að gera málið mjög tortryggilegt. (Gripið fram í: Bö.) Hann notar orð eins og það að þingmannanefndin ætli að skila „froðu um verslunarmannahelgina“ og síðan verði gögnin „niðursoðin í tunnur á Þjóðskjalasafni“. Ég verð að segja, frú forseti, að þegar menn eru að tala um virðingu Alþingis (BirgJ: Það er engin virðing Alþingis.) finnst mér þessi málflutningur (Gripið fram í.) ekki til þess fallinn að auka virðingu Alþingis.

Svo sitja menn úti í sal og kalla hér fram í: Það er engin virðing Alþingis. (Forseti hringir.) Segir það ekki meira en mörg orð um afstöðu þessara tilteknu þingmanna til þessa vinnustaðar? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)