138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[10:25]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Því miður hefur þingið ekki þurft neina hjálp hingað til til að grafa undan sínum eigin trúverðugleika. Þann 20. janúar í fyrra kom það bersýnilega í ljós. Þá var Hreyfingin ekki á þingi til grafa undan þinginu, það voru þingmenn sjálfir sem ætluðu að fara að ræða sprúttsölufrumvarp sjálfstæðismanna. Það er óheiðarlegt að bera þetta upp á Hreyfinguna.

Rannsóknarnefnd Alþingis á að skila af sér skýrslu og Alþingi á sjálft að ákveða hvað verður gert við þá skýrslu. Það sem við leggjum til í breytingartillögum okkar er að þau atriði sem snúa beinlínis að þingmönnum sjálfum eða ráðherrum eða fyrrverandi þingmönnum eða fyrrverandi ráðherrum verði skoðuð að auki af sérfræðingum úti í bæ og að þingið fái svo ábendingar frá slíkum hópi, m.a. til þess að auðvelda þeim vinnuna. Það er ekki verið að vísa málinu alfarið út í bæ, það er verið að afvegaleiða umræðuna (Forseti hringir.) hérna viljandi og það er einfaldlega dapurlegt að verða vitni að því.