138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:56]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var í hópi þeirra þingmanna sem greiddu því atkvæði á sínum tíma, 5. desember á síðasta ári, að við reyndum að leita pólitískrar lausnar á þessu máli. Það var gert í trausti þess að stuðst yrði við Brussel-viðmiðin svokölluðu sem voru sameiginleg viðmið. Ég er sammála fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra og aðstoðarmanni hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra um að samningaleiðin sem farin var af núverandi ríkisstjórn tók ekki tillit til Brussel-viðmiðanna. Þar held ég að við höfum gert mjög afdrifarík mistök.

Þegar við tókum hina pólitísku ákvörðun á síðasta hausti um að fara þessa leið gáfum við aldrei frá okkur möguleikann á því að fara með þessi mál fyrir dómstóla ef ekki fyndist viðunandi lausn. Ég er enn sömu skoðunar, ég tel að það hafi verið skynsamlegast, eins og reynt var, að fara hina pólitísku leið. Ég tel hins vegar að ríkisstjórnin hafi brugðist í þeim efnum, hún hafi komið heim með lélegan samning sem Alþingi í raun hafnaði í sumar, og ef ekki er hægt að ná pólitískri niðurstöðu í málinu sem er viðunandi fyrir okkur Íslendinga eigi að fara dómstólaleiðina. Ég sagði aldrei um það að við værum þar með að skapa okkur áhættu upp á þá peninga sem hv. þingmaður nefndi. Ég er hins vegar sömu skoðunar og hv. formaður Sjálfstæðisflokksins sagði í sumar að sú niðurstaða sem fékkst núna í seinni samningalotunni sé í raun og veru eins og að hafa tapað dómsmáli og ef eitthvað er, heldur verra. Varðandi Icesave og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, þá vitna ég bara til yfirlýsingar framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að það séu ekki tengsl þar á milli, enda hvernig má það vera að stofnun á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fari að blanda sér í tvíhliða deilu þriggja fullvalda ríkja (Forseti hringir.) sem búa við réttarkerfi? Það væri hneisa fyrir þá stofnun sem hún ætti erfitt með að bæta nokkurn tíma fyrir.