138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:04]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hélt ég hefði alveg klárað þetta áðan með því að þakka hv. þingmanni fyrir þetta fína samstarf.

Það er engin smáspurning sem hv. þingmaður veltir upp. Vissulega er þetta gríðarlega stór áhættuþáttur eins og hv. þingmaður hefur bent á og samkvæmt þeim spám sem við fengum meðal annars á fundi efnahags- og skattanefndar frá Daniel Gros þá sagði hann að það væru mjög litlar eða jafnvel hverfandi líkur á því að mikil verðbólga verði í Bretlandi á næstu árum. Hér erum við að tala um einn virtasta hagfræðing í Evrópu. Segjum sem svo að þær spár sem þessi virti hagfræðingur hefur komið fram með gangi eftir, þá erum við því miður í verri málum en dæmið lítur út núna og lítur það illa út fyrir.

Að sjálfsögðu er ekkert gaman að vera með svartnættisraus. Ég vona að það gleðilega gerist að safarík verðbólga verði í Bretlandi en því miður getum við ekki horft fram hjá því að helstu sérfræðingar heims á sviði efnahagsmála hafa varað okkur við því að verðbólga í Bretlandi verði mjög lítil, að þar verði jafnvel verðhjöðnun á næstu árum. Það segir sig sjálft að þá erum við í mun erfiðari stöðu og þess vegna höfum við barist fyrir því í minni hlutanum hér á þingi, og sumir einstaklingar í meiri hlutanum, að fá fram sterkari fyrirvara. Það hlýtur að þjóna hagsmunum beggja aðila að við getum staðið við þær skuldbindingar sem við skrifum undir. Það er algerlega óljóst núna hvort við getum það til framtíðar litið og mörg vafaatriði eru um hvað gerist ef við getum það ekki. Erum við þá mögulega að hengja á okkur skuldaklyfjar til áratuga? Það viljum við væntanlega ekki gera og þess vegna hefðum við átt að fara sem ein heild, ræða við Breta og Hollendinga, fara yfir þessi mál með þessi álit til grundvallar og reyna að fá betri og ítarlegri fyrirvara (Forseti hringir.) en við stöndum núna frammi fyrir.