138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:31]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Um leið og ég tek undir þær kröfur sem hér hafa komið fram um að áður en þessari umræðu verður lokið verði efnt til fundar í fjárlaganefnd þar sem aðalsamningamaður Íslands verði kallaður til til að skýra það hróplega misræmi sem virðist vera í málum, annars vegar milli þeirra gagna sem fram hafa komið og hins vegar miðað við frásagnir ráðherra. Það er nauðsynlegt til að hjálpa okkur við að upplýsa þetta.

Ég spyr líka enn, eins og ég spurði áðan, hvað hæstv. forseti hyggist fyrir með framhald þessa þingfundar. Er það raunverulega ætlun hæstv. forseta að halda áfram með þessa umræðu þegar gögn eru að berast inn á fundinn, þegar gögn eru að berast inn í þingið? Mörg skipta máli. Í öðrum tilvikum kunna þingmenn að þurfa örlítinn tíma til að meta fyrir sjálfa sig hvort þeir telji það skipta máli. Er ætlunin að halda þessum fundi áfram og er ætlunin að fara í atkvæðagreiðslu um þetta mál á morgun?