138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er dæmi um málflutning ríkisstjórnarliðsins í öllu þessu máli. Þetta er orðhengilsháttur og ekkert annað. Þingmenn allra flokka töluðu um það eftir sumarþingið í viðtölum í fjölmiðlum, bæði stjórnar- og stjórnarandstöðuþingmenn, að þeir vonuðu að það boðaði eitthvað gott hvernig við nálguðumst málið allt í sumar. Um það tókst þverpólitísk samstaða. Mér finnst miður ef þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna reyna að gera lítið úr þeirri þverpólitísku samstöðu sem við þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiddum atkvæði með. Við greiddum atkvæði með þessum breytingum. Við skulum ekki fara út í það frekar.

Ég geri meira en þingmenn Samfylkingarinnar sem sátu í síðustu ríkisstjórn og eru reyndar enn þá í ríkisstjórn, eins og þáverandi hv. þm. Össur Skarphéðinsson, núverandi ráðherra, hv. þm. Kristján Möller og hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir. Ég viðurkenni að ég var í síðustu ríkisstjórn með Samfylkingunni, það hafa þau varla gert og mér heyrist nú að hv. þm. Helgi Hjörvar vilji ekki horfast í augu við þann veruleika. Allt sem hv. þingmaður sagði varðandi Heritable bankann er rétt. Hins vegar var líka dregið fram að við værum ekki að afsala okkur neinu gegnum aðra að halda áfram með Heritable-málið. Það liggur alveg ljóst fyrir og í því felst ráðgjöf Mishcon de Reya, að nota það sem vopn á Breta því að þetta mál er ofboðslega óþægilegt, pólitískt sem kerfislega, fyrir Breta. Það vita allir að breska fjármálaeftirlitið tók Heritable bankinn algjörlega að ósekju.

Þess vegna spyr ég á móti: Af hverju stungu Vinstri grænir og Samfylking, ríkisstjórnin, þessum upplýsingum undir stól? Af hverju var þessu ekki beitt í samningaviðræðum af fyllstu hörku? Það er búið að afhjúpa að það var ekki gert og ég spyr: Af hverju ekki? Ekki koma með eitthvert bla, bla um að það hafi verið búið að afgreiða þetta á ríkisstjórnarfundi í byrjun ársins. Það var ekki þannig. Ráðgjafar okkar sögðu: (Forseti hringir.) Þið getið notað þetta í samningaviðræðunum, það (Forseti hringir.) liggur fyrir, svart á hvítu. Það er reyndar skjal sem er í öryggishólfi aðalsamningamanns Íslands.