138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:19]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Þetta er búinn að vera alveg ótrúlegur sólarhringur. (Gripið fram í: Ekki búinn enn.) Ekki búinn enn. En frá því að … (VigH: Það versta er eftir.) Ég held að ég taki nú undir með samflokkskonum mínum um það að þótt dagurinn í dag og gærkvöldið hafi verið erfitt er náttúrlega það ömurlegasta eftir. Það er að þessi ríkisstjórn og þeir sem hana styðja skuli stefna að því að samþykkja þessar breytingar á samningnum, því að við megum ekki gleyma því að það eru í gildi lög í landinu um ríkisábyrgð á Icesave-samningunum með fyrirvörum sem mikil sátt náðist um í sumar, efnahagslegum fyrirvörum sem ég kom m.a. að því að smíða. Það sem ég tel einna sorglegast í öllu þessu ferli er að við skulum gefa frá okkur vörnina gagnvart því að standa í skilum með þessa skuldbindingu.

Ferlið hófst með því að þetta blessaða bréf frá Mishcon de Reya barst og þingmenn eru búnir að koma hér upp og fara í gegnum bréfið sjálft. Ég held að það hafi meira og minna birst opinberlega. Það sem mig langar til að minnast á er hvað mér hafa fundist svörin hjá stjórnarliðum sláandi. Komið hefur fram að þetta séu gamlar upplýsingar, það sé ekkert nýtt í þessu, en samt sem áður var heilmikið nýtt fyrir mér þegar ég las þetta bréf. Hæstv. utanríkisráðherra talar um að það sem kemur fram í bréfinu hafi ekki gerst, hann muni ekki eftir því. (Gripið fram í.) Af einhverri ástæðu, virðist vera, fullyrðir síðan hæstv. fjármálaráðherra að hann trúi og viti nákvæmlega hvað er í þessum upplýsingum, hann virtist vita nákvæmlega hvað verið var að tala um í sambandi við þessa þriðju leið sem nefnd er í bréfinu sem ég hafði ekki hugmynd um. Ég taldi mig þó vera búna að kynna mér gögn málsins mjög vel.

Síðan er bent á að þetta tengist þessum Heritable banka sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og hv. þm. Helgi Hjörvar ræddu aðeins í andsvörum áðan, að þetta hafi fyrst og fremst snúist um að fengist hafi lögfræðiálit á því að hugsanlegt væri að fara með þetta mál fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Jafnframt var sagt að það hafi verið önnur mun virtari lögfræðiskrifstofa sem hafi algjörlega afgreitt það og sagt að það kæmi ekki til greina. Það sem er mjög áberandi í því lögfræðiáliti sem við fengum á milli 2. og 3. umræðu, og sem kemur fram í þessu bréfi og tölvupóstum sem bárust síðan í dag, er alveg hunsað. Það er ekki þannig að lögfræðiskrifstofan leggi fyrst og fremst upp með að við getum unnið þetta mál fyrir Mannréttindadómstólnum, heldur benti hún á að þetta væri ákveðin hótun, ákveðið vopn sem við gætum beitt gegn viðsemjendum okkar, alveg eins og þeir beittu okkur hótunum og þvingunum án þess að það hafi komið beint fram. En við höfum sannarlega fengið að finna fyrir því í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þótt hann hafi harðlega neitað að nokkuð svoleiðis hafi farið fram. Við höfum líka fundið fyrir því í samningaviðræðunum við Norðurlöndin að þar hefur hótunum líka verið beitt. Menn neita kannski opinberlega, en við höfum svo sannarlega fundið fyrir því. Það er ástæðan fyrir því að ég tel að þrátt fyrir að mönnum sé það þvert um geð ætla stjórnarliðar að greiða atkvæði með þessu. (Gripið fram í.)

Ég held að það sé líka það sem kom fram í ræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, að nú orðið tengist þetta svo mikið sjálfsmynd og ímynd forustumanna stjórnarflokkanna. Þeir eru búnir að leggja svo mikið undir að þeir geta ekki bakkað, þeir geta ekki viðurkennt að þeir hafi gert mistök. Ég tel að það sé mjög sorglegt og við hefðum svo sannarlega átt að geta tekið höndum saman og reynt enn á ný að leysa úr þessu saman.

Mig langar til þess að ljúka síðustu ræðu minni í þessu máli með nokkrum orðum frá Jónasi Hallgrímssyni, með leyfi forseta:

„Óskandi væri að Íslendingar færu að sjá að það er aumt líf og vesælt að sitja sinn í hverju horni og hugsa um ekkert nema sjálfan sig og slíta svo sundur félag sitt og skipta sundur afli sínu í svo marga parta sem orðið getur, (Forseti hringir.) í stað þess að halda saman og draga allir einn taum og hugsa fyrst og fremst um heiður og velgengni landsins sem öllum góðum Íslendingum ætti þó (Forseti hringir.) að vera í fyrirrúmi.“