138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:52]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Við meðferð þessa máls á Alþingi hafa komið fram mjög alvarlegar athugasemdir og upplýsingar sem eru enn mjög umdeildar. Þó hafa allir stjórnmálaflokkar á Alþingi verið sammála um eitt grundvallaratriði í þessu máli: Engin lagaleg skylda, hvorki samkvæmt íslenskum né evrópskum rétti, hvílir á Íslandi um greiðslu þeirrar fjárhæðar sem krafist er með afar óbilgjörnum hætti.

Með málatilbúnaði sínum fer því ríkisstjórnin fram á að íslenska þjóðin takist á herðar skuldbindingar án dóms og laga, skuldbindingar sem hún hefur aldrei undirgengist. Nauðungarsamningarnir vega að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar, þeir stefna tækifærum ungra Íslendinga í voða. Í húfi er sjálfsmynd Íslendinga og þjóðarstolt. Frumvarp ríkisstjórnarinnar sem hér er komið til afgreiðslu vegur að hvoru tveggja. Ég segi nei.