138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:47]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningunum þannig að ég bið hana að svara í seinni umferð. Frumvarpið liggur fyrir, það er í þingskjölum. Það eru ekki neinir fyrirvarar á frumvarpi hv. þingmanns og hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, hvað varðar þjóðaratkvæði. Þetta er skýrt og ég get lesið það í ræðu minni á eftir og mun gera það. Ég bið hæstv. ráðherra að svara aftur spurningum mínum.

1. Var þetta frumvarp mistök?

2. Er raunverulegur vilji til að setjast niður og fara yfir þetta?

Ég vek athygli á því út af orðum hæstv. ráðherra að það var hæstv. ráðherra Jóhanna Sigurðardóttir sem sagði okkur í ágúst að það sem við vorum að afgreiða væri innan samkomulagsins. Hæstv. ráðherra sagði að það væri ekkert mál að fara og útskýra það fyrir viðsemjendunum. Hún bæri engan kvíðboga fyrir því þannig að það þýðir ekki að koma því yfir á stjórnarandstöðuna.

Stóra málið er þetta: Ætlum við á þessari ögurstundu að setjast niður og finna aðra lausn á þessu máli? Sú lausn sem liggur fyrir, þessi samningur sem liggur fyrir, er ekki ásættanleg fyrir þjóðina og hér er hvorki meira né minna en framtíð þjóðarinnar að veði.